Morgunsöngur í lok forvarnarviku, Jól í skókassa og söfnun fyrir Bergið
Nú í morgun var fyrsti morgunsöngurinn í manna minnum haldinn í Garðaskóla. Tilefnið var ærið; forvarnarviku Garðabæjar lýkur í dag en í vikunni hafa samskipti verið í forgrunni. Í gær í umsjón horfðu nemendur einmitt á stutt myndband um hvað það er sem sameinar fólk og gerðu nokkrar laufléttar æfingar inni í hverjum bekk. Og hvað sameinar fólk betur en að syngja saman?
Nemendaráð skólans óskaði sérstaklega eftir því að fá til okkar trúbador og stjórna samsöng og völdu þau hinn frábæra Ketil Ágústsson til verksins.
Í leiðinni var það tilkynnt að á Gagn og gaman dögunum í síðustu viku náðu nemendur í 8. bekk að útbúa 108 gjafakassa til að gefa til barna í Úkraínu. Það verða því 108 úkraínsk börn sem munu gleðjast um jólin þökk sé nemendum Garðaskóla.
Einnig var tilkynnt að nemendur í 9.-10. bekk náðu að safna kr. 211.000 með vöfflusölu á Gagn og gaman dögum og basar á samráðsdaginn. Peningurinn rennur til Bergsins Headspace sem veitir ungmennum einstaklingsbundna ráðgjöf og þjónustu.
Þetta er í fyrsta skiptið sem skipulagt Gagn og gaman daga er á þennan veg, þ.e. að við einblínum ekki eingöngu á að hafa gaman, heldur líka að gefa af okkur. Það voru krakkarnir í nemendaráði sem komu með þessa hugmynd og þetta skipulag er komið til að vera.