Forvarnarstarf í Garðaskóla
Í janúar taka nemendur Garðaskóla þátt í forvarnarstarfi af ýmsu tagi. Jón Jónsson heimsótti 8. bekkinga um miðjan mánuðinn og fjallaði um neikvæðar afleiðingar þess að taka í vörina og veipa. Ástæða er til að fylgjast sérstaklega vel með viðhorfi unglinga til rafrettu notkunar því hún hefur aukist undanfarin misseri. Það er í raun óskiljanlegt af hverju einstaklingar sem eru ekki háðir nikótíni taka upp á því að nota rafrettur.
Á næstu vikum fá nemendur í 8. bekk fræðslu um forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi. Nemendur í 9. bekk hlusta á fyrirlesturinn „Krakkar með krökkum“ sem Salka Sól mun flytja á sal skólans. Þetta er nýtt verkefni gegn einelti sem Heimili og skóli í samstarfi við KVAN stendur að og er Garðaskóli einn af fimm skólum á landinu sem prufukeyrir dagskrána. Í kjölfar fyrirlestursins munu fulltrúar úr öllum umsjónarbekkjum taka námskeið í verkfærakistu gegn einelti í skólum og halda jafningjafræðslu fyrir 8. bekkinga seinna í vor.
Könnunin Ungt fólk 2019 verður svo lögð fyrir alla árganga fimmtudaginn 7. febrúar. Niðurstöður þessarar árlegu könnunar veita foreldrum, starfsfólki skóla og félagsmiðstöðva mikilvægar upplýsingar um lífsstíl og líðan unglinga á Íslandi. Forvarnarstarf Garðaskóla og Garðalundar er þróað í takt við niðurstöður könnunarinnar ár hvert.