Garðskælingur fær verðlaun á Rappað og rímað
22.10.2018 20:31
Í byrjun október héldu Samtök móðurmálskennara upp á 40 ára starfsafmæli sitt. Af því tilefni var haldin afmælishátíð þar sem meðal annars voru veitt verðlaun í textasamkeppninni Rappað og rímað. Keppnin var opin nemendum á unglingastigi grunnskóla og í framhaldsskólum.
Birna Berg Bjarnadóttir, nemandi í 10. KFS, fékk á afmælishátíðinni verðlaun fyrir örsöguna sína Ríkisborgari í ríki rándýranna og steig á stokk ásamt öðrum verðlaunahöfum og flutti verkið sitt.
Óskað var eftir textum af öllu tagi t.d. rappi, ljóðum, örleikritum, örsögum og hugleiðingum þátttakenda. Einu skilyrðin voru að textinn mátti ekki fara yfir 500 orð eða þrjár mínútur í flutningi. Óskum við Birnu til hamingju með árangurinn.