Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Vel heppnuð Erasmus nemendaheimsókn

11.05.2018 14:39
Vel heppnuð Erasmus nemendaheimsókn

Dagana 23.-30. apríl síðastliðinn voru erlendir gestir í heimsókn í Garðaskóla. Um var að ræða nemendur og kennara frá Finnlandi, Grikklandi, Ítalíu, Spáni og Þýskandi sem ásamt nemendum úr Garðaskóla eru þátttakendur í  Erasmus+ verkefninu Art Ventures in EUROPE - in search of common roots and perspectives”.

Verkefnið felst í því að hver skóli velur ákveðið menningarsögulegt viðfangsefni og setur upp leiksýningu eða gerir stuttmynd byggða á verkinu. Í íslenska hlutanum kynna nemendur sér Þrymskviðu, söguna á bakvið hana og norræna goðafræði  Í framhaldinu skrifa þeir svo handrit og gera stuttmynd þar sem að Þrymskviða er færð til nútímans.

Frá Lahti í Finnlandi komu þrír nemendur ásamt kennara, frá Eritreu í Grikklandi tveir nemendur og tveir kennarar, frá Ítalíu tveir nemendur og einn kennari, frá Spáni fjórir nemendur og einn kennari og frá Þýskalandi komu svo sjö nemendur í fylgd fimm fullorðinna. Erlendu nemendurnir gistu hjá þátttakendum Garðaskóla í verkefninu.

Á meðan á heimsókninni stóð tóku nemendur og kennarar þátt í sameiginlegum vinnustofum þar sem að meðal annars var farið í grunnatriði kvikmyndagerðar undir handleiðslu kvikmyndagerðarmanns sem kom með þýska hópinum. Einnig var farið í styttri og lengri ferðir. Þátttakandur fóru til dæmis í miðbæ Reykjavíkur, Hörpuna og Bláa lónið. Þá var farið með hópinn Gullna hringinn. Að lokum má nefna að það vildi svo heppilega til að árshátíð Garðaskóla var haldin þessa viku og fengu erlendu vinir okkar að sjálfsögðu að fara með á hana. Allir voru sérstaklega ánægðir með þetta kvöld og höfðu orð á því hversu vel hefði verið að hátíðinni staðið, hvað öll skemmtiatriðin hefðu verið flott og svo auðvitað árshátíðarmyndbandið.

Það voru glaðir nemendur og kennarar sem héldu af landi brott í lok vikunnar. Hópurinn mun að sjálfsögðu halda áfram að vera í sambandi og svo eiga okkar nemendur eftir að heimsækja sína vini í þeirra löndum.

Hægt er að sjá myndir frá heimsókninni í myndasafni skólans.

Til baka
English
Hafðu samband