Foreldrafræðsla um málefni sem varða kynlíf og kynhegðun, miðvikud. 26. apríl, kl. 20:00-21:30
Í upphafi þessarar mánaðar heimsótti Dagbjört Asbjörnsdóttir, BA í mannfræði og MA í kynja- og kynlífsfræðum, alla 8. bekki og ræddi við nemendur um málefni sem varða kynlíf og kynhegðun.
Næstkomandi miðvikudagskvöld, 26. apríl, verður boðið upp á foreldrafræðslu fyrir aðstandendur og börn þeirra í 8. bekk.
Fræðslan fer fram í gryfju skólans og stendur frá kl. 20:00 til 21:30. Allir eru velkomnir.
Tölvupóstur vegna kvöldfundarins var sendur aðstandendum í upphafi mánaðar og verður ítrekun send strax eftir helgi.
Forsaga verkefnisins er sú að haustið 2002 fóru stjórnendur Réttarholtsskóla í Reykjavík þess á leit við Dagbjörtu Ásbjörnsdóttur, Guðbjörgu Eddu Hermannsdóttur (MA í félagsráðgjöf) og Sigurlaugu Hauksdóttur (MA í uppeldis- og menntunarfræði) að veita fræðslu fyrir foreldra og nemendur um kynlíf og kynhegðn unglinga. Í ljósi góðra undirtekta hefur þessi fræðsla um langt skeið verið boðin í öðrum grunnskólum.
Fræðslan samanstendur af fyrirlestrum, hópavinnu og pallborðsumræðum. Fyrirlestur ásamt pallborðsumræðum og verkefnavinnu tekur 1½ klst.
Fyrirlesarar eru þær:
Dagbjört Ásbjörnsdóttir
er með BA gráðu í mannfræði og MA í kynja- og kynlífsfræðum. Hún hefur unnið með unglingum fyrir Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur í tíu ár og hefur verið að vinna að málefnum er varða kynlíf og kynhegðan unglinga undanfarin sex ár. Hún sat í stjórn Kynfræðifélags Íslands og hefur verið formaður Fræðslusamtaka um kynlíf og barneignir (FKB).
Guðbjörg Edda Hermannsdóttir
er menntaður félagsráðgjafi og með MA í félagsráðgjöf. Hún vann í átta ár á Kvennasviði Landspítalans við ráðgjöf um fóstureyðingar. Hún er í stjórn FKB, var í ráðgjafahópi fyrir ungt fólk á vegum FKB og er í stjórn Kynfræðifélags Íslands. Í dag starfar hún sem skólafélagsráðgjafi.
Sigurlaug Hauksdóttir
er menntaður félagsráðgjafi og með MA í uppeldis- og menntunarfræði. Hún hefur undanfarin þrettán ár unnið með alnæmissmituðu fólki, auk þess sem hún hefur í sex ár unnið sem ráðgjafi á Neyðarmóttökunni vegna nauðgunar þar sem ungt fólk er stærsti hópur þolenda. Hún hefur setið í stjórn FKB og fræðslunefnd FÍ en er nú í stjórn Alnæmisbarna, auk þess að sinna fræðslustörfum.