Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Samræmd próf í 9. og 10. bekk - staða mála

09.03.2017 12:54
Samræmd próf í 9. og 10. bekk - staða mála

Framkvæmd samræmdra könnunarprófa í 9. og 10. bekk í þessari viku gengur vel. Við viljum hrósa nemendum í 8. bekk fyrir góða umgengni um húsið og tillitssemi í garð þeirra nemenda sem setið hafa í prófum. Allir starfsmenn eru samtaka í að leysa verkefnið vel, skipulag hefur verið mjög gott og öll framkvæmd hefur gengið hnökralaust.

Ljóst er að umfjöllun um samræmd könnunarpróf í fjölmiðlum í þessari viku hreyfir við nemendum, forráðamönnum og kennurum og vekur ýmsar áhyggjur. Margt sem kemur fram í þessari umræðu eru atriði sem mikilvægt er að tekin séu til alvarlegrar skoðunar í Menntamálaráðuneytinu og hjá Menntamálastofnun. Stjórnendur Garðaskóla hafa á undanförnum misserum sent nokkur erindi og fjölmargar fyrirspurnir til viðeigandi aðila um þau atriði sem nefnd hafa verið. Við leggjum höfuð áherslu á að markmið námskrár séu skýr og að mat á árangri nemenda og starfi skóla sé markvisst og vel unnið. Á þessu eru ýmsir vankantar í núverandi stöðu. En starfið í Garðaskóla hvílir á traustum grunni og kennsla er í höndum reyndra fagmanna. Við höfum einbeitt okkur að því að upplýsa nemendur og forráðamenn eins og mögulegt hefur verið um tilgang og fyrirkomulag samræmdra prófa, kröfur um hæfni við lok grunnskóla og vinnulag við innritun í framhaldsskólana. 

Vegna fjölmiðla umfjöllunar í vikunni viljum við benda á eftirfarandi atriði:

  • Um innihald prófanna og samræmi: Kennarar og stjórnendur Garðaskóla hafa ekki yfirsýn eða upplýsingar um innihald samræmdu prófanna sem nú fara fram. Kallað var eftir þessum upplýsingum í janúar en skýrt svar hefur ekki borist frá Menntamálastofnun. Við höfum því ekki forsendur til að svara skýrt hvort allir nemendur hafi farið í gegnum sömu prófspurningar eða hvort um nokkrar útgáfur af spurningum hafi verið að ræða. Ef það er raunin að nemendur hafi fengið mismunandi spurningar í yfirstandandi prófum þá er það að okkar mati ekki vandamál, heldur þekkt aðferð til að tryggja öruggar niðurstöður prófa sem margir nemendur taka. Nemendur sitja þétt og geta séð á skjái hjá hver öðrum og því er nauðsynlegt að hafa röð spurninga mismunandi og helst að hafa spurningar ólíkar. Þetta þýðir samt ekki að prófið sé ekki samræmt. Hægt er að búa til ótal spurningar sem prófa sama hæfniþáttinn og þetta notum við t.d. markvisst hér í Garðaskóla. Fagdeildir hjá okkur nota oft 2-3 útgáfur af prófi til að minnka líkur á prófsvindli meðal nemenda. Þessari aðferð er alltaf beitt í PISA prófunum líka. Skólastjóri Garðaskóla hefur athugasemdir við umfjöllun í fréttum ríkisútvarpsins miðvikudaginn 8. mars þar sem fjallað var um þetta atriði eins og það kæmi í veg fyrir að prófið væri samræmt.
  • Um gildi samræmdra prófa við innritun í framhaldsskóla: Nemendur eiga sjálfir niðurstöður sínar úr samræmdum prófum. Garðaskóli sendir í engum tilvikum niðurstöður prófanna til framhaldsskóla eða annarra aðila. Með nýtilkominni reglugerð er ljóst að framhaldsskólar mega biðja umsækjendur um skólavist að skila inn einkunnum úr samræmdum prófum með umsóknum sínum. Skv. samtölum skólastjóra Garðaskóla við stjórnendur nokkurra framhaldsskóla hafa fáir framhaldsskólar áhuga á þessum valkosti og munu ekki nýta hann. Nokkrir skólar, ber þá helst að nefna vinsæla bóknámsskóla í Reykjavík, hafa þó gefið út að þeir vilji nýta einkunnir úr samræmdum prófum til að gera upp á milli margra mjög hæfra umsækjenda.

Stjórnendur og kennarar Garðaskóla munu koma margvíslegum athugasemdum á framfæri við Menntamálastofnun og Mennta- og menningarmálaráðuneyti í næstu viku, þegar yfirstandandi prófalotu er lokið. Við munum gera kröfu um að fá skýrar upplýsingar um innihald prófanna svo við getum nýtt niðurstöður þeirra til að leiðbeina nemendum um framhaldið á námsferli þeirra. Við hvetjum forráðamenn til að fylgjast vel með fréttum frá okkur um framvindu mála og hafa samband ef spurningum er ekki full svarað.

Með samstarfskveðju,

Brynhildur Sigurðardóttir, skólastjóri Garðaskóla

Til baka
English
Hafðu samband