Heimspekileg samræða með 4. bekk í Flataskóla
Heimspekival í Garðaskóla átti á dögunum samtal við nemendur í 4. bekk í Flataskóla í anda heimspekilegrar samræðu. Berglind Egilsdóttir, nemandi í 10. bekk, skrifaði frétt um heimsóknina.
Heimspeki hópurinn fór saman í Flataskóla í þeim tilgangi að eiga heimspekilegar samræður með nemendum í 4. bekk. Verkefnið var þannig sett fram að við lásum fyrir krakkana heimspekilega sögu sem við sömdum sjálf og spurðum krakkana síðan spurninga út frá lesefninu og bjuggum þannig til heimspekilegar samræður.
Ferðin heppnaðist vel og krakkarnir stóðu sig með prýði. Krakkarnir tóku virkan þátt í umræðum, sögðu sína skoðun á hvað þeim fannst siðferðilega rétt og rökstuddu svör sín. Krakkarnir eru ennþá að mynda sínar eigin skoðanir og voru því svolítið feimin að segja hvað þeim fannst, en þó voru nokkrir nemendur sem voru óhræddir að segja álit þeirra og þau töluðu svolítið fyrir hópinn. Niðurstöðurnar sem við fengum voru einróma, allir voru rosalega sammála. Mér fannst vanta örlitla fjölbreytni því að það var eins og að það ríkti hópþrýstingur og allir þurftu að vera eins, en þetta gilti ekki um alla. Það sem kom mér mest á óvart hvað þessir krakkar voru skynsamir miðað við aldur, hugsanir þeirra voru þróaðar og það var auðvelt að tala við þau. Auðvitað voru þau með svolítinn galsa og voru sumir að sýna sig fyrir samnemendur sína, en þau eru bara krakkar og hegðunin er skiljanleg. Krakkarnir skildu söguna vel, örugglega vegna þess að sagan var mjög vel sett fram, sögupersónurnar voru á þeirra aldri og sagan var rituð á talmáli sem þau skildu.
Mér fannst verkefnið mjög skemmtilegt og fræðandi og ég held að allir, bæði við og nemendurnir í Flataskóla hafi lært eitthvað af þessu. Þetta kenndi mér að krakkar geta líka verið mjög klárir þótt að þeir séu ungir og hafi kannski litla reynslu af raunveruleikanum, vita þeir meira en mig grunaði. Það er alltaf gaman að prófa að gera eitthvað nýtt og öðruvísi. Ég hefði áhuga á því að gera þetta aftur og jafnvel prófa að gera samskonar verkefni með öðrum aldursflokkum, eldri eða jafnvel yngri.