Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Aðgengi að lífinu - heimsókn frá MND félaginu

13.11.2015 09:52
Aðgengi að lífinu - heimsókn frá MND félaginu

Fimmtudaginn 12. nóvember fengu 10. bekkingar í Garðaskóla kynningu á verkefninu "Aðgengi að lífinu" og aðstæðum hreyfihamlaðra á Íslandi. Verkefnið er keyrt í annað skiptið í ár og fékk MND félagið styrk frá Velferðarráðuneytinu til að endurtaka leikinn frá því í fyrra.  

Verkefnið er liðakeppni sem felur í sér könnun á aðgengismálum hreyfihamlaðra í nærumhverfi nemenda. Tilgangur verkefnisins er eftirfarandi:
1. Að efla skilning ungmenna á aðstæðum hreyfihamlaðra
2. Að stuðla að bættu aðgengi hreyfihamlaðra með lausnum ungs fólks
3. Að skapa jafnréttisgrundvöll á milli hreyfihamlaðra og óhreyfihamlaðra 

Að lokinni kynningu hjá Guðjóni Sigurðssyni formanni MND félagsins og Arnari Helga Lárussyni formanni Samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra og atvinnumanni í hjólastólaakstri gafst nemendunum tækifæri á að skrá sig í keppni í 4 manna hópum. Löng röð myndaðist við skráninguna og því augljóst að mikill áhugi hafi skapast.

Keppnin sjálf fer þannig fram að hverjum hópi er úthlutað hjólastól í 1 sólarhring til þess að greina hindranir í nærumhverfi sínu, t.d. að komast í tómstundastarf, fara í verslanir, komast á bókasafn o.s.frv. Þegar þetta hefur verið kannað þá er næsta skrefið að finna lausnir á þeim hindrunum sem urðu á vegi þeirra og gera grein fyrir hindrunum og lausnunum með samantekt. Samantektin má vera á hvaða formi sem ungmennin sjálf kjósa, t.d. skýrsla, myndband, glærukynning o.s.frv. Ungmennin hafa 1 viku frá því að þau skila inn stólnum til þess að skila inn samantekt á hindrunum og lausnum í því formi sem þau kusu. Kynning á verkefninu fer fram á tímabilinu 2. - 6. nóvember 2015 á landsbyggðinni og 9. – 13. nóvember 2015 á höfuðborgarsvæðinu og skólum í innan við klukkutíma akstri frá Reykjavík. Í kjölfar kynninganna fer keppnin af stað og verður verðlaunaafhending í lok nóvember. Veitt verða vegleg verðlaun fyrir besta verkefnið auk þess sem verkefnin í 2. og 3. sæti fá verðlaun.

Hægt er fræðast nánar um verkefnið á YouTube  og í myndasafninu má skoða myndir frá kynningunni og fyrstu afhendingu hjólastóla til þriggja hópa. 

Til baka
English
Hafðu samband