GERT verkefni í Garðaskóla
Garðaskóli er er einn þeirra skóla sem er aðili að GERT þróunarverkefni (grunnmenntun efld í raunvísindum og tækni) sem ætlað er að auka áhuga grunnskólanemenda á verk- og tæknistörfum. Menntamálaráðuneytið, Samtök iðnaðarins og Samband íslenskra sveitafélaga standa að þessu verkefni. Hópur nemenda í 10. bekk mun taka þátt í þessu þróunarverkefni ásamt náms- og starfsráðgjafa á vorönn 2015 og fór hópurinn í fyrstu heimsóknina sl. þriðjudag en það var í stoðtækjafyrirtækið Össur. Framundan eru fleiri heimsóknir m.a. í Marel, IKEA, Tækniskólann og Keili miðstöð fræða, vísinda og atvinnulífs. Einnig munum við fá heimsóknir í Garðaskóla m.a. frá Kompás sem heldur úti fræðslu og þekkingarvef, Team Spark frá Háskóla Íslands en það er hópur ungs fólks í HÍ sem sér um smíði á rafmagnskappakstursbíl og fleiri góðir gestir munu líta við hjá okkur. Markmiðið með þessu þróunarverkefni er að auka þekkingu nemenda á verk- og tæknistörfum sem og öðrum störfum sem eru unnin í fyrirtækjunum og menntunarleiðum.