Viðgerð á matsölu Garðaskóla
22.08.2013 14:03
Í sumar hefur viðgerð á þaki Garðaskóla staðið yfir og gengið seint. Nú við skólabyrjun er staðan sú að ekki verður hægt að vinna mat og framreiða í matsölunni og verður hún því færð til í húsinu og ráðstafanir gerðar til bráðabirgða. Föstudaginn 23. ágúst verður engin sala á lausamat í boði en í hádegishléi verður öllum nemendum boðið að þiggja grjónagraut.
Vikuna 26.-30. ágúst verður heitur matur og takmarkað úrval af lausamat til sölu í skólanum. Nemendur munu áfram hafa aðgang að vatnsvél og örbylgjuofnum. Einungis verður hægt að greiða með peningum. Á næstu vikum er því viðbúið að röskun verði bæði á afgreiðslu matsölunnar og í matsal nemenda. Vonumst við til að nemendur og forráðamenn sýni þolinmæði og skilning á meðan framkvæmdir við húsið standa yfir.
Þakviðgerðin sem veldur þessari röskun í starfsemi skólans hefur seinkað af tveimur ástæðum. Skemmdir í þakinu voru meiri en áætlað hafði verið og veðrið í sumar hefur haft umtalsverð áhrif. Nú miðar viðgerð vel áfram.
Samstarfskveðja,
Stjórnendur Garðaskóla