Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Garðaskóli er heilsueflandi skóli

30.05.2013 16:04
Garðaskóli er heilsueflandi skóli

Heilsudagar standa yfir í Garðaskóla 30. og 31. maí. Dagarnir eru opnunarhátíð verkefnisins heilsueflandi grunnskóli sem verið hefur í undirbúningi undanfarin misseri. Dagskráin hófst með umsjónartíma og samkomu á sal í morgun. Íþróttakennarar skólans stjórnuðu slökunar- og leikfimiæfingum sem allir tóku þátt í. Að æfingum afloknum bauð skólinn nemendum ávexti í morgunverð. 

Drög að heilsustefnu skólans eru í umsagnarferli og eru allir foreldrar hvattir til að kynna sér þau og koma athugasemdum á framfæri við stjórnendur skólans.

Við setningu Heilsudaga ávarpaði Brynhildur Sigurðardóttir skólastjóri nemendur með litlu erindi:

Er lazer tag gott fyrir heilsuna?

Er þetta kannski kjánaleg spurning? Snýst heilsan ekki bara um að vera laus undan veikindum og alvarlegum slysum?

Að mínu mati er mikilvægt að við hugsum um hluti eins og það hvort lazer tag sé gott fyrir heilsuna. Heilsa er eitthvað sem býr í mér, í líkamanum og sálinni, en hún er ekki sjálfgefin. Ég þarf að hlúa að henni þannig að ég verði ekki gömul fyrir aldur fram. Ég þarf líka að hlúa að henni á hverju augnabliki, vera heilbrigð hverja stund. Að fara í lazer tag getur hjálpað mér við þetta. Leikurinn er góð hreyfing og krefst mikillar einbeitingar. Ég þarf að vera vel vakandi, horfa og hlusta og þess vegna skerpir þessi leikur skynfæri mín og líkamann allan. Ég fer með vinum mínum og við skemmtum okkur saman. Það skiptir líka miklu máli fyrir heilsuna því ef ég er einmana og leið þá hefur það áhrif á mig, það er heilsuleysi í sálinni sem getur haft áhrif á líkamann líka. Margir kannast við að fá hausverk eða magapínu af stressi eða kvíða. Og ef stressið er langvarandi þá getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsufarið.

Þið vitið hvernig á að halda góðri heilsu. Af hugmyndum sem þið hengduð upp áðan sést það augljóslega. Hugmyndirnar er fjölbreyttar og skemmtilegar:

  • hreyfum okkur
  • verum ástfangin
  • verum glöð og jákvæð
  • verum ákveðin
  • borðum hollt
  • sofum nóg
  • get dat body movin

Í dag lýsum við því yfir að Garðaskóli sé heilsueflandi skóli. Við gerum þetta meðal annars af því að foreldrar ykkar hafa kvatt skólann til að sinna þessu verkefni sérstaklega. Við gerum þetta af því að starfsfólk hefur mikinn áhuga á því að við hreyfum okkur meira saman, borðum hollari mat og hlúum vel að hvert öðru í skólanum. Og við viljum vera heilsueflandi skóli af því að það skiptir ykkur miklu máli. Matarmál nemenda eru hitamál hér í skólanum. Í ykkar hópi eru nokkur hundruð íþróttamenn og margir þeirra eru nú þegar orðnir afreksfólk á sínu sviði. Fulltrúar úr nemendaráði hafa í vetur setið í Heilsueflingarnefnd og hjálpað okkur starfsfólkinu að ákveða hvað það þýði fyrir Garðaskóla að vera heilsueflandi skóli. Ég vil þakka Guðmundi Rögnvaldssyni og Ívu Marín Adrichem sérstaklega vel fyrir þátttöku þeirra í fundum heilsunefndarinnar í vetur.

Ég hvet ykkur öll til að hugsa um heilsueflinguna sem skemmtilegt verkefni. Látið okkur vita hvernig þið viljið vinna þetta verkefni. Eigum við að halda skólahlaup? Breyta mötuneytinu? Vera góð hvert við annað? Byrja skóladaginn á slökun? Halda fleiri böll? Segið okkur hvað þið viljið. Setjið miða í hugmyndakassann við skrifstofuna. Nú hefjum við heilsueflingu og svo mótum við hana eins og við viljum á næstu árum þannig að við í Garðaskóla séum samtaka um að lifa góðu lífi og líða vel saman.

Til baka
English
Hafðu samband