Evrópskur andi yfir Garðaskóla
Það er evrópskur andi yfir Garðaskóla þessa dagana. Í síðustu viku komu hingað 20 nemendur frá Finnlandi, Frakklandi og Þýskalandi í fylgd 6 kennara. Það var auglýst eftir nemendum í 9. bekk til að taka á móti krökkunum og þeir sömu fara síðan til viðkomandi landa í haust. Erlendu krakkarnir dvelja á heimilum hjá viðtökunemendunum og hefur það gengið mjög vel. Þau hafa verið ákaflega áhugasöm og skipulagt þétta dagskrá fyrir gestina sem virðast njóta dvalarinnar, enda hefur veðrið leikið við þau. Allur hópurinn fór í 2 skipulagðar ferðir; á fimmtudaginn var farin Krísuvíkurleið í sól en hvínandi roki undir öruggri leiðsögn Ingimars myndmenntakennara og á sunnudaginn var farið á Gullfoss, Geysi og Þingvöll. Að öðru leyti hafa hóparnir verið með mismunandi dagskrá. Sumir hafa farið á hestbak, farið var í Bláa lónið, í bæjarrölt og að sjálfsögðu var haldið Eurovisiopartý á laugardagkvöldið. Er ástæða til að þakka foreldrum þessara nemenda sem hafa verið mjög jákvæð og umhyggjusöm gagnvart verkefninu. Skólastarfið hefur verið nokkuð slitrótt hjá okkar nemendum þessa daga en þau hafa þó verið í tímum fyrir hádegi að mestu og tekið gestina með sér. Auðvitað hefur þetta raskað starfi þeirra nokkuð, en ég er fullviss um að þessi reynsla þeirra við skipulagningu og að tala erlent tungumál daglega er mikil menntun í sjálfu sér.
Á fimmtudaginn og föstudaginn komu síðan skólastjórar frá Finnlandi, Frakklandi, Ítalíu, Spáni og Þýskalandi og er þetta einnig hluti af Comeniusarverkefninu. Þetta er í raun framhald af fundi sem haldinn var á ráðstefnu í Kína í haust sem Anna og Halla enskukennara sátu fyrir okkar hönd. Er mjög athyglisvert að kynnast skólafólki frá öðrum löndum og fræðast um hvað er á döfinni hjá þeim og kynna þeim okkar starf.