Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Pistill skólastjóra

10.12.2018 19:20
Pistill skólastjóra

Kæru foreldrar og aðrir aðstandendur unglinga í Garðaskóla 

Í þessari viku hafa allir nemendur skólans farið með íslenskukennurum í heimsókn í Ásinn, bókasafnið okkar. Þar tók María Hrafnsdóttir, forstöðumaður safnsins, á móti öllum og kynnti nýjar bækur sem koma út fyrir komandi jól. Unglingarnir sýndu kynningunum mikinn áhuga og hlustuðu áhugasöm. Við vonum að viðburðurinn hjálpi þeim að finna sér skemmtilegt lesefni og hvetjum foreldra til að fylgjast með áhuga þeirra í þessum efnum.

Í síðustu viku fóru allir nemendur á sal til að hlusta á fyrirlestur um hatursorðræðu. Það var Eyrún Eyþórsdóttir, lögreglukona sem fór yfir mikilvægi þess að tala af virðingu til og um minnihlutahópa. Jafnréttisfulltrúi Garðaskóla, Kristján Hrafn Guðmundsson, á heiðurinn að því að við fengum Eyrúnu í heimsókn og er þetta viðbragð við því að við höfum orðið vör við neikvætt og ljótt orðbragð hjá nemendum okkar í garð minnihluta- og viðkvæmra hópa. Því miður er þetta veruleiki hjá okkur og það sýndi sig á salnum að hópar nemenda í 8. og 9. bekk voru tilbúnir að gera lítið úr umræðunni sem fram fór. Við munum áfram vinna að því að skapa hér í Garðaskóla andrúmsloft þar sem allir njóta virðingar og fá svigrúm til að vera þeir sjálfir.

Í frétt á visir.is í gær var fjallað um slúðursíður sem nemendur grunnskóla hafa sett upp á Instagram: http://www.visir.is/g/2018181209231/meidandi-sludri-um-grunnskolaborn-dreift-a-instagram. Síður af þessu tagi hafa komið upp hér í Garðaskóla á undanförnum árum og í vikunni fengum við fregnir af því að ný síða væri komin upp þar sem fjallað er á niðrandi hátt um nemendur í skólanum hjá okkur. Í flestum tilfellum heita þessar síður „slúður í Garðaskóla“ og oft eru þær lokaðar sem gerir starfsmönnum skólans erfiðara um vik að finna þær og uppræta. Við hvetjum ykkur foreldra til að lesa greinina á visir.is og ræða málið við unglinginn ykkar. Með samstilltu átaki getum við verið fljót að venja krakkana okkar af þátttöku í jafn neikvæðri umræðu og þarna er raunin.

Í gær skreyttu nemendur umsjónarstofur sínar til að lífga upp á skólann í skammdeginu og hlakka til jólanna. Skreytingarnar eru glæsilegar (eins og sjá má í myndasafninu) og bera vitni um þann sköpunarkraft og jákvæðu hugsun sem nemendur skólans eru uppfullir af – þrátt fyrir hliðarskref eins og þau sem nefnd eru hér að ofan. Í næstu viku hlökkum við til að taka á móti foreldrum á Starfamessu sem sett verður upp fyrir nemendur á sal fimmtudaginn 13. desember. Dagana 17.-19. desember höldum við danska daga í skólanum og munu þá allar fagdeildir horfa til tungumáls, menningar og náttúru Danmerkur. Miðvikudaginn 19. desember höldum við læsishátíð þar sem nemendur sækja upplestur og fjölbreyttar málstofur þar sem læsi verður nálgast á fjölbreyttan og skemmtilegan hátt. Við leggjum áherslu á að nemendur hafi svigrúm til að njóta aðventunnar í desember og vonum að foreldrar, systkini og aðrir aðstandendur geri það líka.

Ég sendi ykkur samstarfskveðju frá öllu starfsfólki Garðaskóla,
með vinsemd og virðingu,

Brynhildur Sigurðardóttir, skólastjóri

Til baka
English
Hafðu samband