Villibráð, 9. og 10. nóvember
Á Gagn og gaman dögum í Garðaskóla eru nokkrir hópar þess eðlis að tvo daga þarf til að vinna verkefnið. Villibráð var tveggja daga hópur, en miðvikudaginn 9. nóvember heimsóttu þátttakendur hópsins Perluna í undirbúnings- og kynningarskyni og næsta dag, fimmtudaginn 10. nóvember, var haldin villibráðaveisla í heimilisfræðistofunni í Garðaskóla.
9. nóvember - miðvikudagur - Heimsókn í Perluna
Nemendur í Villibráð fóru í heimsókn í Perluna í dag og skoðuðu eldhúsið, bakaríið, lagerinn, kaffiteríuna og aðra starfsemi í húsinu og þar var margt áhugavert að sjá. Í frystinum rákust nemendur á frosinn folaldahaus sem gaf ímyndunaraflinu lausan tauminn í því hvað hægt er að matbúa úr honum. Nemendum fannst m.a. áhugavert að sjá hvað plássið í Perlunni er vel nýtt undir starfsemina. Að lokum var nemendum og kennurum boðið upp á ís ,,Gelato“ sem gerður er að ítalskri fyrirmynd og var hægt að velja um átján mismunandi bragðtegundir. Ísinn er búinn til í Perlunni eins og kökurnar og allt brauðið. Í nóvember er villiréttahlaðborð í Perlunni en fljótlega verður skipt um matseðil þegar jólahlaðborðið tekur við.
10. nóvember - fimmtudagur - Villibráðaveisla
Í dag elduðu nemendur tvíréttaða máltíð. Í aðalrétt var andabringa og kengúrufile. Með því var borið fram steikt grænmeti, pikklaður rauðlaukur og fennel, karmelluseruð epli, sætkartöflumauk og villisveppasósa. Í eftirrétt var gerður heimalagaður vanilluís, með súkkulaðiköku, hindberjasósu og súkkulaðisósu. Nemendur lögðu sig fram um að láta matinn líta fallega út og tókst það mjög vel þar sem bæði aðalrétta- og eftirréttadiskar voru eins og sannkölluð listaverk eins og sjá má á myndum frá veislunni. Nemendur stóðu sig einstaklega vel og kæmi ekki á óvart að einhver úr hópnum legði matreiðslunámið fyrir sig í framtíðinni miðað við tilþrifin.
Hér að neðan getur að líta nokkrar myndir sem teknar voru á báðum dögum.