Samráðsdagur og starfsdagur 6. og 7. nóvember
Við viljum minna á að á morgun, fimmtudaginn 6. nóvember, er samráðsdagur heimila og skóla í Garðaskóla. Því fer ekki fram hefðbundin kennsla þennan dag.
Nemendur mæta í viðtal til umsjónarkennara ásamt foreldri eða forráðamanni. Hvert viðtalsbil er 15 mínútur og biðjum við ykkur vinsamlegast um að virða tímamörkin svo dagskráin gangi sem best fyrir sig.
Í tilefni dagsins munu nemendur standa fyrir vöfflu- og kaffisölu í skólanum. Einnig verða til sölu falleg listaverk sem unnin voru á Gagn og gaman dögum, auk notaðs fatnaðar sem nemendur hafa safnað.
Allur ágóði af sölunni rennur til Bergsins að ósk nemenda Garðaskóla. Bergið veitir ungmennum á aldrinum 12–25 ára fría ráðgjöf og stuðning á þeirra forsendum. Um er að ræða mikilvægt og verðugt málefni sem nemendur hafa sjálfir valið að styðja.
Óskilamunir úr 8. bekkjar ferðum verða til sýnis á borði við skrifstofu skólans. Þar má finna allt frá skítugum sokkum yfir í veglegt par af gönguskóm.
Föstudagurinn 7. nóvember er starfsdagur og því ekki skóli fyrir nemendur.
Næsti hefðbundni skóladagur er mánudagurinn 10. nóvember.
Við hlökkum til góðs dags og samveru með ykkur á samráðsdeginum.