Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Garðaskóli skapar hverjum nemanda námsumhverfi sem hentar honum. Leitast er við að koma til móts við óskir og þarfir nemenda eins og mögulegt er með hópakerfi, námsveri og fjölbreyttu vali. Við leggjum áherslu á að gera nemendum kleift að stunda nám á framhaldsskólastigi og flýta þar með för þeirra sem það kjósa í gegnum skólakerfið. Teymi umsjónarkennara, deildarstjóra, námsráðgjafa og sérkennara sníður lausnir fyrir einstaklinga svo að allir nemendur fái tækifæri að glíma við krefjandi verkefni í umhverfi þar sem þeim líður vel. Námsverið gegnir lykilhlutverki í sérkennslu skólans, bæði fyrir getulitla og getumikla nemendur. Þar fá nemendur aðstoð með ákveðin verkefni til lengri eða skemmri tíma. Við leggjum áherslu á að nemendur sæki sjálfir um stuðning og fái þá aðstoð sem þeir óska eftir og hafa þörf fyrir.

Faggreinar og ferðir

Skólinn státar af öflugri fagkennslu á öllum námssviðum: fræðigreinum, íþróttum, list- og verkgreinum. Fagstjórar halda utan um starfið í hverri námsgrein og stýra hópum fagkennara. Fagkennslan byggist á mikilli samvinnu hjá viðkomandi fagkennurum. Fagteymin fylgjast vel með þróun námskrár og straumum og stefnum í kennslufræði námsgreinarinnar. Við leggjum áherslu á fjölbreytta kennsluhætti, skýra markmiðssetningu og að nemendur séu hvattir áfram til að ná árangri í náminu.

Við leggjum áherslu á að kennslustofur séu vel búnar til faggreinakennslu. Allir kennarar hafa fartölvu til afnota og í stofum eru skjávarpar og hátalarar staðalbúnaður. Hver fagdeild útbýr kennslustofur eins og fagið þarfnast. Í samstarfi við Eignasjóð Garðabæjar gerir skólinn áætlun um viðhald, breytingar og endurnýjun tækjakosts nokkur ár fram í tímann.

Nemendur í 8. bekk eru í bekkjakerfi sem styður við þá félagslega á meðan þeir eru að laga sig að vinnubrögðum og skólabrag. Áhersla er lögð á að nemendur fái gott svigrúm sitt fyrsta ár í skólanum til að aðlagast vinnubrögðum og samskiptareglum skólans. Bekkirnir eru blandaðir en reynt er að hafa svipaðan nemendafjölda í öllum deildunum. Stuðningur við nám og hegðun fer að mestu leyti fram inni í bekkjardeildum.

Í 9. og 10. bekk í Garðaskóla er nemendum skipt í námshópa innan hverrar greinar fyrir sig eftir óskum og námsgetu hvers og eins.  Hópakerfið er byggt upp á svipaðan hátt og áfangakerfi fjölbrautaskóla og hver nemandi fær eigin stundaskrá. Í dönsku, ensku, íslensku og stærðfræði er skipt upp í mismunandi námshraða. Farið er í sömu námsþætti en námsgögn geta verið mismunandi eftir ferðum og í hraðferðum er farið yfir talsvert meira námsefni en í hægferðum. Teymi fagkennara raðar nemendum í ferðir í hverri grein. Miðað er við einkunnir á haustannarprófi og niðurstöður símats og röðunin er síðan endurskoðuð að vori. Innan hverrar greinar eru sett ákveðin viðmið fyrir röðuninni. Í grófum dráttum má lýsa ferðunum á eftirfarandi hátt:

·         Hraðferðir miðast við nemendur sem hafa náð mjög góðum tökum á námsefninu. Hóparnir eru fjölmennir og gerð krafa um sjálfstæð vinnubrögð.

·         Miðferðir miðast við nemendur sem hafa nokkuð góð tök á námsefninu. Hóparnir eru skipaðir 18-26 nemendum. 

·         Hægferðir miðast við nemendur sem hafa ekki náð góðum tökum á námsefninu. Farið er hægar yfir og nemendur fá einstaklingsmiðaðri stuðning við nám sitt. Hóparnir eru fámennir og oft kenndir af teymi fag- og sérkennara. 

·         Flugferðir í 9. bekk miðast við duglega og afkastamikla nemendur sem geta farið hraðar yfir námsefni og sótt svo nám í svonefndum fjölbrautaáföngum í 10. bekk. Í flugferðum er farið yfir námsefni 9. og 10. bekkjar í 9. bekk. Nemendum í flugferðum er heimilt að þreyta samræmd próf ári fyrr ef þeir óska.

·         Fjölbrautaáfangar í 10. bekk samsvara fyrstu áföngum í framhaldsskóla. Nemendur sem hafa lokið flugferðum í 9. bekk geta tekið fjölbrautaáfanga í ensku, íslensku, spænsku, stærðfræði og textílmennt. Nemendur sem ljúka þessum áföngum með tiltekinni lágmarkseinkunn geta fengið nám sitt metið til eininga við Fjölbrautaskólann í Garðabæ (FG) og jafnvel fleiri skóla. Nemendum í ensku, íslensku og stærðfræði stendur til boða að taka lokapróf í áföngunum í FG og fá þá vottun framhaldsskóla fyrir að hafa lokið áfanganum. Vilji nemendur taka framhaldsskólaáfanga í fleiri greinum er sá möguleiki einnig fyrir hendi að stunda fjarnám við framhaldsskóla. 

Valgreinar

Fjöldi valgreina er í boði fyrir nemendur í  9. og 10. bekk. Tilgangurinn með valgreinakerfinu er að laga námið sem mest að þörfum einstaklingsins og gera hverjum og einum kleift að leggja eigin áherslur í námi miðað við áhugasvið og framtíðaráform í samvinnu við foreldra, kennara og námsráðgjafa. Framboð valgreina er mismunandi á ári hverju en sérstök áhersla er lögð á greinar á sviði íþrótta, list- og verkgreina. Í samstarfi við bæjaryfirvöld kannar skólinn möguleikann á að setja á stofn starfs- og verknámsbraut sem gæfi nemendum enn betri möguleika á að finna sér nám við hæfi innan skólans.

Uppbrot

Hefðbundið skólastarf er reglulega brotið upp og er þá unnið sérstaklega með grunnþætti menntunar. Á gagn og gaman dögum að hausti er sérstök áhersla lögð á sköpun, heilbrigði og velferð. Sköpun er aftur aðal þemað á listadögum að vori og heilbrigði og velferð á heilsudögum og í ferðalögum á vegum skóla og félagsmiðstöðvar. Auk uppbrotsdaga býður skólinn nemendum upp á leiksýningar og fræðsluerindi af ýmsu tagi til fræðslu jafnt sem skemmtunar. 

Heimanám

Í flestum námsgreinum í Garðaskóla er gert ráð fyrir heimanámi nemenda. Markmið þess er m.a. að:

  • rifja upp og festa betur í minni það sem farið var yfir í skólanum.
  • ljúka verkefnum sem ekki tekst að klára í skólanum.
  • þjálfa betur vinnuaðferðir.
  • undirbúa sig fyrir kennslustund sem leirðir til meiri virkni og gagns af kennslunni.
  • gefa forráðamönnum tækifæri til að fylgjast með námi unglinganna sinna og styðja þá eftir megni.

Heimanám á að vera hóflegt og þjóna ofangreindum tilgangi. Skólinn leggur mikla áherslu á að nemendur temji sér skipulögð vinnubrögð við heimanámið. Í upphafi hverrar annar leggja kennarar fram námsáætlanir sem nemendum er ætlað að vinna eftir. Fagkennarar skrá allt heimanám jafnóðum og það er sett fyrir í mentor. Mikilvægt er að forráðamenn fylgist vel með heimanámi barna sinna og hafi mentor til hliðsjónar. Á vef Garðaskóla má lesa nánar um heimanám í pistli skólastjóra.

Skólinn býður upp á aðstoð við heimanám í stærðfræði. Þörf fyrir slíka tíma er reglulega metin og litið er á þessa þjónustu sem viðbót við úrræði námsversins.

Námstækni

Í upphafi skólaárs fá allir nemendur örnámskeið í námstækni sem námsráðgjafar hafa yfirumsjón með. Kennarar í öllum námsgreinum leitast við að kenna nemendum góðar námsaðferðir og vinnubrögð. Samhliða þessu er nauðsynlegt að nemendur skoði og meti reglulega eigin námsaðferðir og námsvenjur. Ef árangur er ekki sem skyldi þarf að leita úrbóta og skilgreina hvað hægt er að bæta. Að breyta og bæta námsvenjum krefst vilja, þjálfunar og tíma. Ef nemendur óska eftir frekari fræðslu eða leiðsögn í námstækni geta þeir leitað til umsjónarkennara, fagkennara eða námsráðgjafa.

Við Garðaskóla starfa tveir náms- og starfsráðgjafar sem eru nemendum til leiðsagnar varðandi nám, samskipti og líðan. Við hvetjum nemendur og foreldra til að leita til þeirra auk kennara og stjórnenda með hvers kyns spurningar um skólann og stöðu nemenda.

Norska – sænska

Samkvæmt grunnskólalögum eiga allir nemendur að stunda nám í einu Norðurlandamáli. Þeir nemendur sem búið hafa í Noregi eða Svíþjóð og hafa tungumál þessara landa vel á valdi sínu geta stundað nám í því máli í stað dönsku. Skóladeild hefur umsjón með skipulagi kennslunnar sem undanfarin ár hefur farið fram á vegum Tungumálaversins í Laugalækjarskóla. Til að sækja um þessa þjónustu leita nemendur og forráðamenn til deildarstjóra.

(brot úr Skólanámskrá 2014)

English
Hafðu samband