Opið fyrir umsóknir í Evrópusamstarfs verkefni
Um margra ára skeið hefur Garðaskóli tekið þátt í sameiginlegum verkefnum nokkurra Evrópulanda með styrk frá Evrópusambandinu. Verkefnin hafa verið margvísleg og hafa bæði nemendur og kennarar skólans tekið þátt. Nokkur lönd hafa komið að samstarfinu og afraksturinn er mjög fjölbreytilegur. Alltaf hefur þó verið haft að leiðarljósi að auka skilning og virðingu fyrir menningu og margbreytileika annarra Evrópuþjóða.
Mikilvægur hluti af hverju samstarfsverkefni hafa verið gagnkvæmar nemendaheimsóknir. Þar hafa nemendur Garðaskóla fengið tækifæri til þess taka á móti og að heimsækja jafnaldra sína, setjast á skólabekk erlendis, njóta gestrisni heimamanna og fá innsýn í menningu og siði annarrar Evrópuþjóðar. Vinnutungumálið í þessum samskiptum er enska og hver heimsókn stendur í 6 daga.
Í vor hlaut Garðaskóli styrk til nýs Erasmus+ verkefnis og er samstarfsskólinn að þessu sinni í Lahti í Finnlandi sem er í um 100 km norðan við Helsinki.
Nú stendur 10-15 nemendum sem verða í 9. bekk skólaárið 2025-2026 til boða að taka þátt í verkefninu. Þeir þurfa að vera tilbúnir til að vera í samskiptum við og taka á móti erlendum jafnöldrum sínum í gistingu ásamt því að vera þátttakendur í verkefnavinnunni. Okkar nemendur munu að sama skapi gista heima hjá þeim sem þeir tóku á móti.
Endanlegar dagsetningar liggja ekki alveg fyrir en væntanlega fara okkar nemendur til Finnlands 6.- 11. október og finnsku nemendurnir endurgjalda heimsóknina seinni partinn í apríl 2026. Erasmus+ styrkurinn greiðir fyrir flugmiða til Finnlands og skoðunar/vettfangsferðir nemenda á skólatíma.
Nú auglýsum við eftir nemendum til að taka þátt í verkefninu með okkur. Þeim sem hafa áhuga er bent á að sækja um á rafrænu umsóknareyðublaði sem finna má á heimasíðu skólans(undir flipanum „hagnýtt“) og skrifa stutta greinargerð með rökstuðningi þar sem fram kemur af hverju þeir hafa áhuga á verkefninu. Sérstök valnefnd fer yfir umsóknirnar og þar verður meðal annars tekið tillit til ástundunar, vinnusemi og enskukunnáttu. Umsóknarfrestur er til þriðjudagsins 3. júní nk. Nánari upplýsingar veitir Halla Thorlacius, netfang: halla@gardaskoli.is.
Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu geta fyllt út umsókn hér.
Með samstarfskveðju,
Anna Lena Halldórsdóttir
Halla Thorlacius
Katrín Halldórsdóttir
Jóhann Skagfjörð Magnússon skólastjóri