Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Útivistardagur í Bláfjöllum

27.02.2025 14:23

Fimmtudaginn 6. mars er útivistardagur í Bláfjöllum fyrir alla nemendur í 8. og 9. bekk og fyrir þá nemendur í 10. bekk sem ekki fara með í skíðaferð Garðalundar. Nemendur eiga að mæta í skólann kl. 10:00 og lagt verður af stað í Bláfjöll kl. 10:30.

Á útivistardegi er unnið að lýðheilsu með útiveru og hreyfingu. Í Bláfjöllum er hægt að fara í gönguferðir, leiki, renna sér á skíðum/brettum eða öðrum búnaði sem nemendur koma með að heiman. Þó skal tekið fram að ekki er leyfilegt að fara með annan búnað en skíði/bretti í lyfturnar. Útivistardagurinn er hluti af skólastarfi Garðaskóla og er því skyldumæting í ferðina. Ungmennin ráða svo sjálf hvað þau taka sér fyrir hendur í Bláfjöllum.

Allir þurfa að vera vel klæddir hvort sem dagurinn er nýttur í fjallinu eða í aðra afþreyingu á svæðinu. Gott er að vera með hlý nærföt (innsta lag) og með góða úlpu, snjóbuxur eða annan hlífðarfatnað, hanska, góða skó og gott er að hafa skíðagleraugu hvort sem nemendur eru á skíðum/bretti eða við leik.

Ekki er boðið upp á mat á vegum skólans svo mikilvægt er að borða góðan morgunmat áður en lagt er af stað og hafa með sér hollt og gott nesti. Aðstaða er í skálum til að hita samlokur og setjast niður til að borða.

Lagt verður af stað heim úr Bláfjöllum kl. 15:00 og er því áætluð heimkoma rétt fyrir 16:00.

Leiga á lyftukorti

Leiga á lyftukorti og dagpassi kostar kr. 1100 sem greiða þarf til umsjónarkennara í síðasta lagi á miðvikudaginn. Þeir sem eiga árskort geta að sjálfsögðu nýtt það.

Þeir sem ætla að nýta sér skíðalyfturnar og hafa skráð sig hjá kennara fá lyftukortið afhent þegar komið er í Bláfjöll. Í lok dags þarf að skila kortinu til umsjónarkennara. Mikilvægt er að passa vel upp á kortið þar sem kaupa þarf nýtt  kort á kr. 1000 ef kortið týnist..

Búnaðarleiga

Í Bláfjöllum kostar leiga á búnaði kr. 3.200. Nemendur greiða sjálfir fyrir búnaðinn í skíðaleigunni í Bláfjöllum. Einnig er hægt að fá lánaða hjálma þar án kostnaðar, en þeir eru til í takmörkuðu magni svo við mælum með að þeir sem eiga skíðahjálm komi með hann. Það er skylda að vera með hjálma í brekkunum.

Til baka
English
Hafðu samband