Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Rugl á afmæli Garðaskóla

15.11.2019 08:43
Rugl á afmæli Garðaskóla

Mánudaginn 11. nóvember síðastliðinn hélt Garðaskóli upp á 53 ára afmæli. Hefð er fyrir því að Garðalundur skipuleggi dagskrá í Ásgarði í samstarfi við nemendur og ekki var brugðið af vananum þetta árið. Stór og glæsileg kóngadansröð var mynduð af nemendum í félagsmálavali sem sótti aðra nemendur í kennslustundir og leiddi þá út í Ásgarð þar sem söngatriði og ýmiskonar sprell tók við.

Ein af óskum nemenda í skipulagningunni var að nemendur og kennarar/starfsmenn myndu skipta um hlutverk þennan dag. Þar með yrðu einhverjir nemendur kennarar og kennarar að sama skapi nemendur í fyrstu kennslustundum dagsins. Nemendur kenndu í þessum tímum meðal annars málfræði í íslensku, orðaforða og hugtök í samfélagsfræði.

Það voru fleiri en bara kennarar sem buðu starfið sitt laust því nýir starfsmenn tóku til dæmis við á skrifstofu skólastjóra, hjá námsráðgjafa og í upplýsingaverinu Miðjunni. Leystu allir nýju starfsmenn Garðaskóla starf sitt af stakri natni og eiga hrós fyrir.

Myndir frá deginum má sjá í myndasafninu.

Til baka
English
Hafðu samband