Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Erasmus+ - Opnað fyrir umsóknir 9. bekkinga

14.11.2019 08:39
Erasmus+ - Opnað fyrir umsóknir 9. bekkinga

Um margra ára skeið hefur Garðaskóli tekið þátt í sameiginlegum verkefnum nokkurra Evrópulanda með styrk frá Evrópusambandinu. Verkefnin hafa verið margvísleg og hafa bæði nemendur og kennarar skólans tekið þátt. Mest höfum við unnið með skólum frá Þýskalandi, Grikklandi, Spáni, Ítalíu og Finnlandi og í tveimur verkefnum kom skóli frá Kína inn í samstarfið. Útkoman úr samstarfinu hefur einnig verið breytileg. Alltaf hefur þó verið haft að leiðarljósi að auka skilning og virðingu fyrir menningu og margbreytileika annarra Evrópuþjóða.

Mikilvægur hluti af hverju samstarfsverkefni eru gagnkvæmar nemendaheimsóknir. Þar hefur nemendum Garðaskóla og hinna þátttökuskólanna gefist tækifæri til þess að heimsækja jafnaldra sína, setjast á skólabekk erlendis, njóta gestrisni heimamanna og fá innsýn í menningu og siði annarrar Evrópuþjóðar. Vinnutungumálið í þessum samskiptum er enska.

Í janúar 2015 var nýrri samstarfsáætlun sem tekur við af Comenius hleypt af stokkunum. Þessi nýja áætlun, Erasmus+, setur mennta-, æskulýðs- og íþróttamál undir einn hatt og stendur til ársins 2020. Markmið Erasmus+ er annars vegar að styðja við verkefni sem eiga að auka færni og hæfni einstaklinga til að takast á við störf framtíðarinnar og hins vegar að stuðla að nútímavæðingu mennta- og æskulýðskerfa meðal þátttökulandanna þrjátíu og þriggja.

Í haust hlaut Garðaskóli styrk til nýs Erasmus+ verkefnis og eru samstarfsskólarnir frá Þýskalandi, Ítalíu, Spáni, Finnlandi og Grikklandi. Verkefnið sem unnið verður 2017-2019 nefnist „Smart Travelling around Europe: a Youth Guide for Sustainable Tourism” og felst í því að nemendur búa til rafræna ferðahandbók fyrir ungt fólk með áherslu á sjálfbærni sem gerir ferðamönnum kleift að ferðast viðkomandi lönd eða landssvæði á umhverfisvænan máta. Hinn þáttur verkefnisins eru samskipti á netinu (Skype) og gagnkvæmar vikulangar nemendaheimsóknir milli nemenda í Garðaskóla annars vegar og hins vegar nemenda frá Lahti í Finnlandi, Lleida á Spáni, Bari á Ítalíu, Eretria í Grikklandi og Teningen í Þýskalandi.

18 nemendum í 9. bekk stendur til boða að taka þátt í verkefninu. Þeir þurfa að vera tilbúnir til að taka þátt í verkefnavinnunni utan hefðbundins skólatíma, vera í samskiptum við, taka á móti og hýsa erlenda jafnaldra sína. Nemendur sem taka þátt í verkefninu skuldbinda sig til að taka Erasmus+ áfanga haustið 2020.

Nemendaheimsóknir eru sem hér segir:

16. – 22. janúar 2020                   3 nemendur úr Garðaskóla heimsækja Lahti í Finnlandi

16. – 22. mars 2020                     2 nemendur úr Garðaskóla heimsækja Eretria í Grikklandi

9. – 15. nóvember 2020            2 nemendur úr Garðaskóla heimsækja Bari á Ítalíu

1. – 7. febrúar 2021                  5 nemendur úr Garðaskóla heimsækja Lleida á Spáni

12. – 18. apríl 2021                      Nemendur úr öllum skólunum heimsækja Garðabæ

11. – 17. maí 2021                        6 nemendur úr Garðaskóla heimsækja Teningen í Þýskalandi

Þeim sem hafa áhuga á að taka þátt í Erasmus+ verkefninu er bent á að sækja um á heimasíðu skólans og skrifa stutta greinargerð með rökstuðningi þar sem fram kemur af hverju þeir hafa áhuga á verkefninu. Sérstök valnefnd fer yfir umsóknirnar og þar verður meðal annars tekið tillit til ástundunar, vinnusemi og enskukunnáttu. Umsóknarfrestur er til mánudagsins 18. nóvember. Nánari upplýsingar veitir Halla Thorlacius, netfang: halla@gardaskoli.is

Til baka
English
Hafðu samband