Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Skólaráð Garðaskóla fær kynningu á viðveruskráningu

27.04.2018 13:08
Skólaráð Garðaskóla fær kynningu á viðveruskráningu

Foreldrar og nemendur hafa í vetur óskað eftir nánari útskýringu á skráningu ástundundar- og viðveru í Garðaskóla. Af því tilefni var Tryggvi Már Gunnarsson, deildarstjóri boðaður á fund skólaráðs 16. apríl síðastliðinn til að kynna hvernig skráningu er háttað. 

Skólasókn nemenda er skráð daglega í Innu. Bæði nemendur og forráðamenn hafa aðgang að Innu og mikilvægt er að forráðamenn fylgist vel með skráningu þar. Í Garðaskóla er horft á viðveru nemenda til að fylgjast með skólasókn þeirra og fara umsjónarkennarar vikulega yfir stöðu mála.

Skólasóknareinkunn er gefin við lok skólaárs og birt á vitnisburðarspjaldi. Einkunnin byggir á eftirfarandi reglum:

Nemendur eiga að sækja allar kennslustundir stundvíslega. Nemendur sem ítrekað koma of seint eiga von á að verða kallaðir í viðtal til umsjónarkennara og/eða deildarstjóra.

Forráðamanni ber að tilkynna lögmætar fjarvistir samdægurs símleiðis á skrifstofu skólans (sími 590 2500) eða með tölvupósti til skrifstofu (gardaskoli@gardaskoli.is). Þetta á við um t.d. veikindi, tannlæknaheimsóknir og leyfi allt að tveim dögum. Veikindi sem vara í meira en einn dag ber að tilkynna á skrifstofu skólans á hverjum degi. Forráðamenn geta einnig skráð veikindi samdægurs beint í Innu. Ef um langvarandi veikindi er að ræða þarf að framvísa læknisvottorði.

Leyfi þurfa forráðamenn að sækja um fyrirfram. Skólinn mælist til þess að forráðamenn haldi leyfisbeiðnum fyrir nemendur í lágmarki til að tryggja samfellda skólagöngu og lágmarka álag á námsferlinum. Skrifstofa skólans tekur við leyfisbeiðnum vegna stakra kennslustunda og 1-2 daga. Umsóknir um lengri leyfi eru skráðar á vef skólans (http://gardaskoli.is/skolinn/eydublod-og-verkferlar/leyfi/) og fara til aðstoðarskólastjóra til afgreiðslu.

Nánari upplýsingar, ásamt skjámyndum úr Innu, má finna í meðfylgjandi skjali (PDF). Við bendum einnig á nánari útskýringar á heimasíðunni undir Ástundun og skólasókn.
Til baka
English
Hafðu samband