Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Vegna samræmdra könnunarprófa

09.03.2018 11:21

Stjórnendur Garðaskóla hafa sent eftirfarandi yfirlýsingu til Menntamálastofnunar, Menntamálaráðuneytis og Skólastjórafélags Íslands vegna mistaka við framkvæmd samræmdra könnunarprófa í vikunni:

Stjórnendateymi Garðaskóla vill koma eftirfarandi á framfæri vegna óásættanlegra mistaka við framkvæmd samræmdra könnunarprófa miðvikudaginn 7. mars 2018 og föstudaginn 9. mars 2018:

  • Það kemur ekki til greina að raska skólastarfi fleiri skóladaga hjá nemendum fæddum 2003 til að leggja fyrir samræmd könnunarpróf á vegum Menntamálastofnunar. Skipulag prófanna er mjög umfangsmikið í Garðaskóla þar sem nemendur eru á bilinu 170-185 í hverjum árgangi. Til að koma prófunum vel fyrir þarf að hliðra skólastarfi í öðrum árgöngum mikið.
  • Það kemur ekki til greina að leggja samræmt könnunarpróf fyrir nemendur fædda 2003 seinna á grunnskólagöngunni. Nemendur árgangsins hafa nú upplifað mislukkuð samræmd próf í tvígang og bera af þeim sökum ekki lengur traust Menntamálastofnunar.
  • Viðbrögð nemenda í kjölfar þessara samræmdu prófa einkennast af reiði, kvíða og óöryggi. Nemendum finnst illa farið með sig og tíma sinn því margir hafa lagt mikið á sig við undirbúning prófanna. Sumir nemendur þurfa nokkurra daga aðdraganda að stórum verkefnum eins og samræmdum prófum og þeir upplifðu harkalegt skipbrot vegna þeirra tæknilegu erfiðleika sem hindruðu í tvígang töku prófsins.
  • Margir nemendur sem komust af stað með próftökuna vildu klára prófið. Þessir nemendur gera kröfu um að fá niðurstöðu úr sínum prófum. Starfsmenn hafa bent þessum nemendum á að ekki verði hægt að gefa marktækar einkunnir fyrir prófin sem lokið var við en eru sammála nemendum að þeir verði að fá upplýsingar um hverju þeir svöruðu rétt og hverju rangt.

Stjórnendur Garðaskóla gera kröfu um að nú sé staldrað við og farið í róttæka endurskoðun á framkvæmd rafrænna samræmdra könnunarprófa Menntamálastofnunar. Einnig vísum við til fyrri athugasemda frá Garðaskóla um innihald og uppbyggingu samræmdra könnunarprófa. Við gerum alvarlega athugasemd við að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra athugasemda sem við sendum Menntamálastofnun eftir prófin vorið 2017. Þessar athugasemdir birtast t.d. í skýrslu á vef skólans, bls. 21-27: http://gardaskoli.is/library/Files/Mat-a-skolastarfi/SP2017_Lokask%C3%BDrsla.pdf.

Stjórnendur Garðaskóla áskilja sér rétt til að meta það í næstu atrennu hvort þeir taki þátt í að leggja samræmd könnunarpróf fyrir nemendur í Garðaskóla.  

Virðingarfyllst,

Brynhildur Sigurðardóttir, skólastjóri Garðaskóla

Til baka
English
Hafðu samband