Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Frábær árangur Garðskælinga í Skólahreysti

01.04.2014 11:57
Frábær árangur Garðskælinga í SkólahreystiUndanúrslit Kópavogs, Garðabæjar og Mosfellsbæjar í Skólahreysti fóru fram þann 26. mars sl. í Smáranum í Kópavogi. Þangað mættu rúmlega 80 bláklæddir stuðningsmenn úr Garðaskóla, vel skreyttir og undirbúnir til þess að hvetja sitt fólk. 

Þessi frábæri stuðningur hafði góð áhrif á liðið, sem skipað var þeim Haraldi, Örnu Sif, Ingimar og Irmu auk varamannanna Írisar og Kristjáns. Haraldur byrjaði á að jafna íslandsmetið í upphýfingum með því að taka 58 stk. Frábær árangur, sérstaklega í ljósi þess að fyrra metið hafði staðið frá árinu 2009. Garðaskóli tók þar með forystuna. 

Næst var komið að Örnu Sif, sem tók 29 armbeygjur eins og ekkert væri. Haraldur vann dýfulotuna með 55 dýfur og aftur var Garðaskóli kominn í fyrsta sæti. Arna sá um hreystigreipið, hékk í 3:06 mín, varð í fyrsta sæti og enn hélt Garðaskóli efsta sætinu. Keppninni lauk með hraðabrautinni. Irma og Ingimar sáu um hana, stóðu sig vel og kláruðu brautina á 2:32 mín. 

Frammistaða hópsins, jafnt keppenda sem stuðningsmanna, var frábær. Að lokum fór svo að Garðaskóli lenti í öðru sæti í riðlinum með 64,5 stig - rétt á eftir Lágafellsskóla, sem sigraði. Skólinn var einungis 2,5 stigum frá því að komast í úrslit Skólahreystis og hefur aldrei verið nær því að komast í höllina. Það hefst eflaust á næsta ári.

Í tilefni af frábærum árangri voru keppendur kallaðir upp, daginn eftir keppnina, og þeim gefinn smá glaðningur frá skólanum. Stuðningsliðið var jafn virkt í skólanum og það var í Smáranum því fagnaðarlætin voru mikil. Einkar gaman var að sjá hversu góður andi ríkti í nemendahópnum jafnt fyrir og eftir keppnina.

Áfram Garðaskóli!

 


Myndir með frétt

Til baka
English
Hafðu samband