Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Forvarnarfræðsla í 10. bekk

05.11.2012 10:47
Magnús Stefánsson kom í heimsókn í Garðaskóla á föstudaginn og veitti nemendum 10. bekkjar svokallaða Marita-fræðslu, sem er forvarnarfyrirlestur um kannabisefni. Hann fór yfir það sem sagt er um kannabis, satt og logið. Áhuga áheyrenda vantaði ekki og Magnús náði vel til nemenda. Hann veitti góða innsýn inn í þennan dimma heim enda maður með mikla reynslu. Þetta féll vel í kramið hjá okkur nemendum. Mikilvægi svona fyrirlestrar er mikið vegna hópþrýstings og slakrar þekkingar unglinga á þessum málefnum. Nemendum fannst þetta einmitt eitthvað sem vantaði í umræðuna og enginn vafi liggur á því að þeir gengu fróðari út af fyrirlestrinum enda lögðu þeir vel við hlustir. Það var gott að heyra frá fyrrverandi/núverandi fíkli og sýndi það alveg nýja hlið á málinu þar sem að flestir fíklar mæla yfirleitt á móti því að neyslan sé óholl og hættuleg. Magnús Stefánsson tónlistarmaður og fyrirlesari er fyrrverandi fíkill en sagðist hafa verið edrú í rúm 15 ár en ennþá ,,ástfanginn“ af kannabis og þarf því alltaf að vera vakandi og á tánum af hættu við að falla. Fíkniefnadjöfullinn er svo sannarlega kröftugur. Þetta var svo sannarlega fræðandi og áhugaverð fræðsla. Við hlökkum til að fá framhaldsfyrirlesturinn eftir áramótin.

Annalísa og Helga Þöll nemendur í 10.bekk.
Til baka
English
Hafðu samband