Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Skólalok í Garðaskóla

13.06.2019 11:26
Skólalok í Garðaskóla

Áður en formleg skólaslit fóru fram í Garðaskóla föstudaginn 7. júní síðastliðinn var mikil dagskrá til að marka skólalok. Nemendur 10. bekkja sýndu meðal annars lokaverkefni sín, heilsueflingardagur var haldinn hátíðlegur og Jón Jónsson kom við og tók lagið með öllum.

Nemendur í 10. bekk eru búnir að vinna að lokaverkefnum sínum síðan í mars og kenndi þar ýmissa grasa. Básar voru settir upp í Ásgarði og aðstandendum og öðrum áhugasömum boðið að líta við til að skoða. Á sama degi tóku nemendur 8. og 9. bekkjar þátt í heilsueflingardegi sem lauk með árlegum knattspyrnuleik kennara og nemenda í útskriftarárganginum. Í fyrsta skipti í sögu keppninnar fóru kennarar með sigur af hólmi, 3-2 og var því fagnað vel af starfsmannahópnum.

Daginn eftir voru útskriftarnemendurnir formlega kvaddir af yngri nemendum með "kveðjugöngunum" en sjálfur Jón Jónsson hitaði upp. Síðar um daginn var útskrift 10. bekkinga fyrir fullu húsi aðstandenda og kennara. Eftir samkomu á sal var boðið í veitingar á sameiginlegu hlaðborð áður en kampakátir útskrifaðir einstaklingar löbbuðu út úr grunnskólanum sínum. Skólaslit 8. og 9. bekkjar fór fram 7. júní og mæta nemendur aftur til starfa föstudaginn 23. ágúst næstkomandi.

Hægt er að sjá myndir frá öllu ofangreindu í myndasafninu á heimasíðu.

Til baka
English
Hafðu samband