Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Unglingarnir okkar

06.06.2019 10:35
Unglingarnir okkar

Unglingar í Garðabæ lifa almennt mjög heilbrigðu lífi og eru í góðu sambandi við fjölskyldu sína og vini. Áhættuhegðun er þó hluti af því ferli sem unglingsárin eru og því mikilvægt að foreldrar fylgist vel með börnunum sínum og samfélaginu í kringum það. Unglingurinn er að þroskast úr barni í fullorðinn og sjálfstæðan einstakling. Í því ferli slítur hann sig frá stjórnun foreldranna og þeim reglum sem giltu um hann sem barn og þetta getur verið viðkvæmur tími í lífi einstaklingsins. Sú áhættuhegðun sem við sjáum hjá unglingunum okkar í Garðabæ er t.d. notkun rafretta, svefnleysi, ofnotkun á skjátækjum, of mikil opinberun á samfélagsmiðlum, neysla ávanabindandi efna og ofbeldi. Nokkrir af þessum þáttum eru ókunnugir foreldrum því þeir voru ekki hluti af reynsluheimi þeirra sem unglinga. Við brýnum því foreldra til að taka þátt í því lærdómsferli sem það er að skilja veröld unglinga í dag með því að vera í góðu samtali við börnin sín um það sem þeir og vinir þeirra eru að gera, ræða málin við aðra foreldra og afla sér frekari upplýsinga, t.d. á vef landlæknis: https://www.landlaeknir.is/heilsa-og-lidan/aeviskeid/unglingar-og-ungt-folk/.

Áhættuhegðun unglinga í Garðabæ er í algjöru lágmarki. Það sýna árlegar tölur úr rannsókninni Ungt fólk sem unnin er af Rannsóknum og greiningu. Í lok maí fengu stjórnendur skóla og félagsmiðstöðva í Garðabæ kynningu á niðurstöðum könnunar sem lögð var fyrir nemendur í 8.-10. bekk allra skólanna í Garðabæ í febrúar síðastliðnum. Í könnuninni voru lagðar fyrir 15 spurningar um neyslu vímuefna en að þessu sinni var ekki spurt um aðra þætti eins og svefn og skjánotkun. Helstu niðurstöður fyrir unglinga í Garðabæ árið 2019 eru eftirfarandi:

Munn- og neftóbak: Unglingar í Garðabæ nota ekki þessi efni. Aðeins um 1% nemenda í 8.-10. bekk svara því til að þeir hafi prófað efnið.

Tóbaksreykingar: Reykingar unglinga í Garðabæ eru hverfandi. Í 8. og 9. bekk hafa 0% nemenda í Garðabæ prófað sígarettureykingar en í 10. bekk svara 1,6% nemenda því til að þeir reyki daglega.

Rafrettureykingar: Hér þarf að fylgjast miklu betur með. Notkun unglinga á rafrettum er að aukast verulega. Yfir 10% unglinga í 8. bekk hafa prófað rafrettur og 2% 8. bekkinga nota þær oft. Notkunin eykst með hverju ári og í 10. bekk hafa yfir 17% nemenda prófað að reykja rafrettur og 13% nota þær oft. Það er áhyggjuefni hversu lítill munur er á milli þessara talna, þeirra sem prófa einu sinni og þeirra sem eru komnir í mikla neyslu á rafrettum. Í 10. bekk eru það aðeins um 63% nemenda sem hafa sleppt því alveg að prófa rafrettur sem er vísbending um að neyslan þyki í lagi.

Vegna þess hversu ný varan er á markaði liggja ekki fyrir skýrar niðurstöður rannsókna um skaðsemi eða skaðleysi rafrettanna. Þetta veldur því m.a. að í umræðunni um rafrettur meðal unglinga ber talsvert á rangfærslum og misskilningi. Í Garðaskóla höfum við t.d. fengið svör frá unglingi sem segir að það sé „ekkert nikótín í veipinu hjá mér, það eru bara þrjú milligrömm í vökvanum“. Þrjú mg/ml er ekki það sama og 0 mg/ml og ekki er hægt að horfa framhjá því að nikótín er eitt af mest ávanabindandi efnum sem til eru. Áhyggjur okkar í Garðaskóla eru því m.a. að unglingur sem byrjar að nota rafrettur verði nikótínháður og haldi þá áfram að veipa um langan tíma eða leiðist jafnvel út í tóbaksnotkun og aðra neyslu í kjölfarið.

Önnur staðreynd sem birtist í könnuninni Ungt fólk og mikilvægt er að líta til er þessi: Þegar unglingarnir voru spurðir hvort að foreldrar þeirra væru samþykkir eða á móti notkun rafretta sést í svörum að þeim foreldrum sem eru mjög eða algjörlega mótfallnir notkuninni fækkar og eru nú um 84%. Það er áhyggjuefni ef um um 15% unglinga í Garðabæ upplifa að foreldrar þeirra séu ekki mjög mótfallnir notkun rafretta, þetta er vísbending um minnkandi aðhald foreldra með þessari neyslu. Við vonum að foreldrar snúi vörn í sókn varðandi þennan þátt, taki skýra afstöðu gegn notkun rafretta og standi saman í þeirri stefnu.

Áfengi: Nokkuð stór hluti unglinga í Garðabæ hefur drukkið áfengi. Í 8. bekk svara um 13% að þeir hafi einhvern tímann um ævina drukkið áfengi og þessi tala hækkar með hverju ári og er komin upp í 37% í 10. bekk, sem er hærri tala en landsmeðaltalið. Í þessum svörum geta vissulega verið svör frá krökkum sem hafa fengið að smakka á víni foreldra sinna við matarborðið og því er mikilvægt að skoða betur svör nemenda við spurningunni hvort þeir hafi orðið ölvaðir síðustu 30 daga. Könnunin var lögð fyrir í byrjun febrúar 2019 og því vísa svörin til neyslu unglinganna í janúar: Í 8. bekk var svörunin 0%, í 9. bekk 2,8% og í 10. bekk svöruðu 3,7% nemenda því til að þeir hefðu orðið ölvaðir á síðustu 30 dögum. Í Garðaskóla samsvarar þetta því að um 11 nemendur í 9. og 10. bekk hafi orðið ölvaðir í janúar 2019. 11 manns eru gætu verið gott partý og ástæða er til að hafa þessa staðreynd í huga þegar fylgst er með unglingunum. Starfsmenn skólans og Garðalundar hafa á síðustu tveimur árum orðið varir við fjölgun eftirlitslausra partýja unglinga og við slíkar aðstæður koma of oft upp atvik sem hafa verulega neikvæð áhrif á líf unglingsins.

Önnur fíkniefni: Unglingar í öllum árgöngum unglingastiganna í Garðabæ hafa prófað að reykja marijúana, frá tæplega 2% í 8. bekk upp í rúmlega 6% í 10. bekk. Hafa ber í huga að 6% 10. bekkinga í Garðaskóla eru 11 krakkar. Í 10. bekk í Garðaskóla eru líka einstaklingar sem hafa prófað öll önnur fíkniefni: amfetamín, hass, E-töflur, sveppi og kókaín. Neysla á sniffefnum er að aukast, er tæp 3% í 10. bekk og neysla á heimabruggi er yfir 3% hjá unglingum í 10. bekk.

Neysla á hörðum fíkniefnum setur ungling í mjög viðkvæma og hættulega stöðu. Sem betur fer veit starfsfólk skóla, félagsmiðstöðva og barnaverndar nokkuð vel um hvaða einstaklinga hér er að ræða og tekist hefur vel að ná þeim tilbaka til heilbrigðari lífshátta. Það er verkefni sem þarfnast samstilltra starfskrafta. Foreldrar og starfsfólk í Garðabæ hefur mikinn metnað til að sinna vel og náð mikilvægum árangri í þeirri baráttu.

Verum á verði: Íslendingar hafa náð frábærum árangri í forvörnum á Íslandi, árangri sem hefur vakið athygli um allan heim. Lítil neysla ávanabindandi efna meðal unglinga verður þó aldrei sjálfsagður hlutur, nauðsynlegt er að vinna stöðugt í því verkefni. Við þurfum stöðugt að halda því á lofti að við sættum okkur ekki við að unglingar prófi efni sem geta haft afdrifaríkar afleiðingar á líf þeirra. Við brýnum foreldra til áframhaldandi samstöðu gegn eftirlitsleysi. Tölum saman og beinum unglingunum okkar í jákvæða og uppbyggilega samveru, með hverjum öðrum og með fullorðna fólkinu.

Með samstarfskveðju,

stjórnendur Garðaskóla og stjórn foreldrafélags Garðaskóla

Til baka
English
Hafðu samband