Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Karlastörf/kvennastörf - starfsfræðsla í 9. bekk

28.05.2019 21:00
Karlastörf/kvennastörf - starfsfræðsla í 9. bekk

Á hverju ári býður Garðaskóli nemendum sínum upp á náms- og starfsfræðslu í tengslum við mismunandi starfsgreinar. Stelpur og tækni, viðburður á vegum Háskólans í Reykjavík, SKÝ og Samtaka iðnaðarins, er einn af hápunktum fræðslunnar í 9. bekk. Öllum stúlkum í árganginum var boðin þátttaka í deginum 22. maí síðastliðinn og var það fríður flokkur sem fór frá Garðaskóla í fylgd umsjónarkennara. 

Markmiðið með Stelpur og tækni er að kynna tækni- og iðnaðarstörf fyrir stúlkum sem samkvæmt tölfræði eru ólíklegri til að líta á þann starfsvettvang sem valkost. Allur hópurinn byrjaði í vinnustofum í forritun og tölvuleikjahönnun en eftir hádegi skiptist hann í tvennt og fóru stelpurnar í fyrirtækjaheimsókn í Orkuveituna annars vegar og Marel hins vegar. Þar tóku við fjölbreytt verkefni sem meðal annars fólu í sér rafsuðu og vinnu við ljósleiðara.

Þar sem stúlkurnar í árganginum fengu fræðslu um störf sem í samfélaginu eru flokkuð sem karllæg störf fannst Garðaskóla upplagt að fræða drengina aðeins um störf sem teljast oft kvenlæg. Fengnir voru tveir góðir gestir; Birgir Örn Ólafsson, skurðhjúkrunarfræðingur og Eystein Sindri Elvarsson, leikskólakennaranemi. Þeir sögðu frá sínu starfi og tóku við spurningum drengjanna. Kynningarnar heppnuðust mjög vel og eru pottþétt komnar til að vera og á næsta ári getum við vonandi kynnt enn fleiri störf fyrir drengjunum á sama tíma og stelpurnar fræðast um iðn- og tæknigreinar.

Hægt er að sjá myndir frá dagskránni í myndasafninu

Til baka
English
Hafðu samband