Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Ferðasaga nemenda úr Erasmus+ verkefni 2019

18.02.2019 11:24
Ferðasaga nemenda úr Erasmus+ verkefni 2019

Dagana 14.-20. janúar síðastliðinn fóru þrjár stelpur í  Garðaskóla ásamt tveimur kennurum  í heimsókn til Lahti í Finnlandi.  Um var að ræða þátttakendur í  Erasmus+ verkefninu ArtVentures in EUROPE - in search of common roots and perspectives”. Verkefnið felst í því að hver skóli velur ákveðið menningarsögulegt viðfangsefni og setur upp leiksýningu eða gerir stuttmynd byggða á verkinu.

Lahti er u.þ.b. 100.000 manna borg, 100 km frá Helsinki. Þar gistu umræddar stelpur hjá finnskum jafnöldrum sínum ásamt því að eiga samverustundir í leik og starfi með nemendum frá  Grikklandi, Ítalíu, Spáni og Þýskandi. Dagskráin þessa daga var mjög fjölbreytt og fræðandi. Okkar kennarar sátu fundi með evrópskum samkennurum og nemendurnir fengu að upplifa daglegt líf og kennslu í finnska skólanum. Þar fyrir utan var ýmislegt gert til þess að brjóta upp daginn og fræða í leiðinni um menningu og sögu Lahti og nágrennis. Þar á meðal má nefna:

  • Ísbað og sána
  • Ferð á skíðasafnið í Lahti þar sem að nemendur og kennarar gátu meðal annars farið í síðastökkhermi og þannig komist að því hversu vel sú íþróttagrein lá fyrir þeim.
  • Heimsókn í leikhúsið í Lahti, þar sem að nemendur og kennarar fengu fræðslu um það sem til þarf til að setja upp leikrit ásamt því að fara baksviðs.
  • Heimsókn í útvarpssafnið í Lahti.
  • Uppsetning finnsku nemendanna á leikritinu þeirra.
  • Heimsókn til Helskinki, þar sem að nemendur og kennarar fóru í skoðunarferð, heimsóttu listasafn og fengu svo frjálsan tíma til að kynna sér höfuðborg Finnlands.

Fyrir utan það sem nemendur og kennarar gerðu sameiginlega, gerðu nemendur ýmislegt með finnsku fjölskyldunum sínum. Algengt var t.d. að farið væri á gönguskíði og/eða sleða, enda veðurfarið í Lahti á þessum árstíma kjörið til iðkunar vetraríþrótta.

Það voru glaðar stelpur og stoltir kennarar sem komu til landsins sunnudaginn 20. janúar. Svona ferð skilur eftir sig dýrmætar minningar, aukinn þroska og tengsl við evrópska jafnaldra.

 

 

Til baka
English
Hafðu samband