Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Fullorðnir þurfa að vera snjallari fyrirmyndir: samantekt á umræðuverkefni nemenda um snjalltæki

13.11.2017 09:39
Fullorðnir þurfa að vera snjallari fyrirmyndir: samantekt á umræðuverkefni nemenda um snjalltæki

Snjalltækni og nánast takmarkalaus aðgangur að internetinu eru orðin stór hluti af daglegu lífi okkar. Það eru ekki margir dagar sem líða án þess að við nálgumst einhvers konar upplýsingar eða afþreyingu á netinu.

Umræðan um snjalltæki og skóla tekur stundum á sig frekar einfalda mynd. Algeng birtingarmynd þeirrar umræðu er þegar sumir foreldrar spyrja í foreldraviðtölum af hverju skólinn banni ekki tækin og slökkvi á netinu þegar kennari gerir athugasemd við að síminn trufli nemanda í námi, á meðan aðrir foreldrar spyrja af hverju skólinn sé ennþá að notast við bækur þegar börnin ganga um með ofurtölvur sem veita þeim aðgang að öllum heiminum.

Mitt í þessari umræðu eru svo börnin sem hafa alist upp við það að síminn er allt í senn; félagsmiðstöð, skóli sem kennir þeim það sem þau vilja sjálf læra, sjónvarp og útvarp þar sem þau ráða dagskránni sjálf, fjölmiðill þar sem þau geta tjáð heiminum skoðanir sínar og tilfinningar og síðast en ekki síst tæki sem gerir þeim kleift að hverfa um stund úr amstri skólans og verið bara í friði.

Snjallsíminn getur svo sannarlega verið mikið undratæki sem getur stuðlað að og þróað vandað nám, en á sama tíma er hann freistandi tímaþjófur þar sem alls kyns vitleysa grasserar. Þegar fullorðna fólkið reynir að vanda um fyrir unga fólkinu verður oft til erfið togstreita og leiðindi og þess vegna var ákveðið að hleypa unglingunum í Garðaskóla í umræður um þessi mál. Umræðan fór fram með svokölluðu kaffihúsa- eða þjóðfundarformi, þar sem nemendur fóru á milli umræðustöðva og ræddu nokkrar spurningar um símana, fullorðna fólkið og snjallar fyrirmyndir.

Hér á eftir er samantekt um helstu niðurstöður þessara umræðu. Til þess að draga þær saman voru svör nemenda skráð og útbúin orðaský þar sem sjá má þau orð sem oftast komu fyrir í svörum þeirra. Með því, ásamt því að lesa í gegnum svör nemendanna, er hægt að draga fram ákveðin atriði sem komu oftar fyrir en önnur. Þetta er enginn endanlegur sannleikur, en gefur góða vísbendingu um það sem börnin okkar velta upp þegar verið er að ræða við þau símanotkun. 

Um hvað snúast athugasemdir fullorðinna og nemenda?

Börnin upplifa athugasemdir fullorðna fólksins nokkuð sterkt. Þau heyra greinilega oft að þau séu of mikið í símanum og að þau eigi að vera að gera eitthvað annað. Fáir foreldrar virðast svara því hvað eigi að koma í staðinn og það er mjög áberandi að þessar athugasemdir rista ekki mjög djúpt. Megin ástæðan er sú að börnunum finnst óþægilegt að vera bannað að vera í símanum af fólki sem er sjálft í símanum: 

Hvað er það versta sem getur gerst?

Okkur lék forvitni á að vita hvort allar þær forvarnir og öll sú umræða sem átt hefur sér stað um hætturnar á internetinu hafi skilað sér. Það getur líka verið gagnlegt að reyna að átta sig á nýjum hættum með því að spyrja börnin um þeirra eigin upplifun. 

Börnin virðast mjög meðvituð um það að netheimar bjóði upp á eineltisaðstæður, þar geti fullorðnir nálgast börn í kynferðislegum tilgangi og að of mikil símanotkun geti valdið þunglyndi. Þau eru líka meðvituð um að myndbirtingar og hefndarklám eigi sér stað á netinu. Það er ánægjulegt að sjá hvað þau eru meðvituð um þessar hættur. 

Hvað má fullorðna fólkið ekki sjá?

Það er áhugavert að þrátt fyrir að börnin séu meðvituð um hættuna af óæskilegum myndbirtingum er samhljómur í svörum þeirra um að foreldrar megi ekki sjá myndirnar í símunum þeirra. Þau álíta greinilega myndirnar vera þeirra einkamál og það sama gildir um skilaboð sem þau senda sín á milli. Þau vilja ekki að foreldrar sjái þau. Það sem kom mér mest á óvart var hversu algengt það var að börnin vilji eiga leitarsögu og upplýsingar um það efni sem þau skoða á netinu út af fyrir sig. Þegar þetta er sett í samhengi við skilning þeirra á þeirri hættu sem netið býður upp á er ljóst að það getur verið stutt á milli þess að virða einkalíf barnanna á netinu og að sýna þeim eðlilega afskiptasemi og umhyggju með því að fá að sjá einmitt það sem þau vilja ekki að maður sjái. Þarna reynir á foreldra og forráðamenn í að byggja upp traust með því að sýna því skilning að þarna stunda nemendur ýmislegt sem er þeim heilagt, en að þau finni að þarna megi ekkert vera sem ekki þolir að foreldrar skoði það. 

Snjallar fyrirmyndir?

Þegar börnin eru spurð að því hvernig fullorðna fólkið stendur sig sem fyrirmyndir eru þau nokkuð sammála um að fullorðnir séu ekkert skárri. Þau eyði löngum stundum í símanum, hlusti ekki, segist verða að klára, segist vera að vinna en eru bara á samfélagsmiðlum. Þeim finnst líka mörgum ósanngjarnt að gera þá kröfu á nemendur að birta ekki myndir án samþykkis þeirra sem eru á myndunum, en séu svo sjálf að setja myndir inn á samfélagsmiðla af börnunum, án þess að fá leyfi barnanna.

Af þessu öllu má sjá að síminn og netið er í hugum margra barna þeirra einkaheimur. Þau vilja eiga þar sjálfstætt líf, án afskipta foreldranna, geta haft samskipti sem fullorðnir vita ekki af, skoða efni sem þau vilja ekki að foreldrarnir viti af. Það er þess vegna kannski skiljanlegt að þau geti átt erfitt með að skilja tækin við sig, einfaldlega vegna þess að þessi heimur er stór hluti af tilveru þeirra. Þarna hafa þau völd og frelsi sem þau hafa ekki í raunheimum.

Þau eru nokkuð augljóslega meðvituð um ýmsar hættur sem þarna geta leynst en maður getur auðveldlega efast um að þau hafi alltaf þroska til þess að takast á við þennan heim, greina trúverðugleika á því efni sem þau eru að lesa, einfaldlega vegna þess að afskipti okkar fullorðna fólksins rista ekki mjög djúpt. Þau upplifa ótrúlega mörg ákveðna hræsni í því að þeir sem banna þeim að nota símann séu að nota hann sjálf. Jafnvel við aðstæður þar sem ekki má nota hann, eins og t.d. undir stýri, í bíó, við matarborðið o.s.frv.

Ef okkur á að takast að kenna börnunum meiri ábyrgð í notkun snjalltækja verða þau að vera virkir þátttakendur í þeirri fræðslu. Ef okkur á að takast að gera börnin hæfari í að stjórna símanotkun sinni verðum við að hafa þau með í ráðum. Við þurfum líka að líta í eigin barm og passa að þau sjái að hægt sé að hafa stjórn á símanotkuninni.

Þau þurfa snjallari fyrirmyndir en þau hafa núna. 

Til baka
English
Hafðu samband