Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Frá frumkvæði til framkvæmdar

28.04.2015 20:01
Frá frumkvæði til framkvæmdar

Nokkrir kennarar í Garðaskóla hafa í vetur tekið þátt í þróunarverkefninu „Frá frumkvæði til framkvæmdar“ sem miðar að því að efla nýsköpunarmennt í skólanum. Kennarar úr Flataskóla taka einnig þátt í verkefninu sem unnið er í samstarfi við símenntunarmiðstöðina Klifið og Dr. Rósu Gunnarsdóttur sérfræðing í kennslufræðum.

Kennararnir hafa fengið námskeið í nýsköpunarfræðum, rýnt í eigin starfsaðferðir og gert tilraunir með breyttar kennsluaðferðir. Nemendur í smíði, skapandi smiðju og fleiri list- og verkgreinum hafa notið góðs af þessum tilraunum og fengið að prófa ýmislegt sem kennararnir voru að kynna sér. 

Í byrjun árs fóru nokkrir nemendahópar til dæmis í Fab Lab í Breiðholti en þar eru ýmis tæki og tól sem hægt er að nýta til að gera hugmyndir sýnilegar á augabragði. Eftir heimsóknirnar í Fab Lab sögðu nemendur m.a. frá þessu:

„Það tóku tvær stelpur á móti okkur og sögðu okkur hvað Fab Lab væri og allt um það. Við bjuggum til límmiða sem ég límdi á fataskápinn minn. Við byrjuðum á að finna mynd sem við vildum hafa, síðan gerðum við eitthvað fullt í tölvunni sem er of mikið til að segja hér, síðan skar vínilskerarinn þetta út.“

„Fab Lab er stytting á ensku orðunum Fabrication Laboratory.
Fab Lab smiðja opnaði í Breiðholti þann 24. janúar árið 2014 í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Reykjavíkurborg og Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Fimm Fab Lab smiðjur eru á Íslandi en alls eru þær rúmlega 300 víða um heim. Í smiðjunni munu ungir sem aldnir fá tækifæri til að þjálfa sköpunargleðina og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni og kennara sem ávallt eru á staðnum.
Fab Lab í Breiðholti er vel tækjum búið. Þar er stór fræsivél til að búa til stóra hluti úr tré og plasti, lítil fræsivél til að fræsa rafrásir eða í þrívídd til mótagerðar, þrívíddarprentari, laserskerar til að skera út hluti í t.d. pappa, plexígler, MDF eða  við og merkja í gler, svo dæmi séu tekin. Einnig er vinylskeri sem sker út límmiðafilmur og koparfilmur. Í smiðjunni er einnig rafeindabúnaður, sem hægt er að lóða á rafrásabretti og forrita ásamt ýmsum gerðum af skynjurum, þrívíddarskanni og fjöldi tölva, hlaðnar opnum og frjálsum hugbúnaði til þess að hanna hvað sem er.
Fab Lab er opið almenningi á þriðjudögum frá kl. 13-17 og fimmtudögum frá kl. 17-21. Þangað er öllum heimilt að koma, nýta sér aðstöðuna og fá aðstoð. Einungis er greitt fyrir það efni sem notað er.“

Myndir með frétt

Til baka
English
Hafðu samband