Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

SAMFÉS og SAFT efna til samkeppni um besta barna- og unglingaefnið á netinu

16.10.2012 10:36
Evrópusamkeppni um besta barna- og unglingaefnið á netinu er sameiginlegt átak netöryggismiðstöðva í Evrópu og þeirra þjóða er starfa samkvæmt netöryggisáætlun Evrópusambandsins. Þetta er í annað skipti sem samkeppnin er skipulögð og mun hún fara fram í tvennu lagi:
1. Fyrst er samkeppni á landsvísu sem fram fer í öllum þátttökulöndum. Hún er skipulögð af netöryggismiðstöðvum í hverju landi fyrir sig. Skilafrestur verkefna hérlendis er föstudagurinn 21. janúar 2013.
2. Evrópusamkeppni fer svo fram í júní 2013 en þar etja sigurvegararnir úr landskeppnunum kappi.
Tilgangur samkeppninnar er að vekja athygli á gæðaefni fyrir 6 til 18 ára börn og unglinga sem er nú þegar til staðar á netinu. Einnig er ætlunin að hvetja til framleiðslu á þess háttar efni. Markmiðið er að netefnið gagnist börnum á einn eða annan hátt svo sem við fræðslu og sköpun.
Samkeppnin er opin ungmennum á aldrinum 12 til 17 ára. Samtök og fyrirtæki geta tekið þátt sem og einstaklingar eldri en 18 ára og hópar.
Reglur um þátttöku og val verðlaunaverkefnis á landsvísu eru í höndum innlendra umsjónarmanna. Evrópusamkeppnin er einungis opin fyrir vinningshafa frá hverju landi fyrir sig. Þar verða tvenns konar verðlaun veitt. Annars vegar er um að ræða verðlaun fyrir efni frá fullorðnum og hins vegar verðlaun fyrir efni sem gert er af ungmennum.
Helstu viðmið við val á verkefnum eru: Ávinningur fyrir viðmiðunarhóp - Hversu aðlaðandi verkefnið er – Áreiðanleiki – Notkunarmöguleikar – Markaðssetning
SAFT1 hefur umsjón með keppninni hérlendis í samstarfi við SAMFÉS, en aðrir bakhjarlar eru: Lenovo, Microsoft á Íslandi og Síminn. Tillögur sendist á netfangið: saft@saft.is en nánari upplýsingar er að finna á http://www.saft.is/samkeppni.

Fréttatilkynning
Til baka
English
Hafðu samband