Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Gauragangur

04.10.2010
Gauragangur

Gauragangur

e. Ólaf Hauk Símonarson

Þessar vikurnar lesa nemendur í 9. bekk bókina Gauragang eftir Ólaf Hauk Símonarson og vinna margvísleg verkefni. Verkefnin eru fjölbreytt; efnisspurningar, hugleiðingar, hópverkefni, reifun o.fl. Reifunin er framsagnarverkefni þar sem nemendur kynna ákveðna þætti úr bókinni og reifa eigin hugmyndir og rökstyðja þær.

Sunnudagskvöldið 26. september fóru íslenskukennararnir með 9. árganginn í Borgarleikhúsið til að sjá Gauragang á sviði. Starfsmenn Borgarleikhússins tóku einstaklega vel á móti hópnum. Mikil spenna var í loftinu þegar við fórum kynningarferð um leikhúsið og hittum leikarana og rúsínan í pylsuendanum var að fá að vera við upphitun fyrir sýninguna.

Krakkarnir stóðu sig mjög vel og voru til fyrirmyndar í alla staði. Mikil ánægja var með sýninguna og má segja að krakkarnir hafi verið í sjöunda himni og ánægðir með að sjá persónur bókarinnar glæddar lífi. 

Íslenskukennarar 

Hér að neðan má sjá umsögn nemenda.

Gauragangur er mjög skemmtileg bók sem við vorum að ljúka við að lesa. Hún fjallar strák sem heitir Ormur og er 16 ára. Hann er þunglyndur en heldur því samt fram að hann sé skáld og snillingur. Mamma hans og pabbi eru skilin, hann á ömurlega stjúpmóður og þolir ekki stjúppabba sinn.

Við fórum á leikritið með öllum 9. bekk sem var mjög skemmtilegt og vildum við að það væri oftar gert. Það var gaman að skoða leikhúsið fyrir sýningu og sjá leikarana hita upp.

Leikritið og bókin voru mjög lík en það voru nokkur atriði sem voru öðruvísi eins og t.d. að Ormur átti systur í stað bróður, Hallfreður var ekki í leikritinu og Ormur átti ekki frænku sem hét Sigga. Ólafur Haukur Símonarson er höfundur bókarinnar. Hann er þekktur íslenskur höfundur og hefur gefið út margar bækur.
Þetta var mjög skemmtileg bók og mælum við eindregið með henni.
Nemendur í 9. bekk

Smellið hér til að skoða myndir

Til baka
English
Hafðu samband