Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Þórsmerkurferð 10. bekkjar

14.05.2008
Þórsmerkurferð 10. bekkjar

Þann 8.maí lagði 10.bekkur af stað í vorferð inn í Þórsmörk. Rútuferðin tók u.þ.b. þrjá tíma og þar var mikið spjallað, hlegið og fleiri skemmtilegheit. Á leiðinni var stoppað á Hvolsvelli þar sem allir fengu sér ferskt loft og margir eitthvað í svanginn. Förinni var haldið áfram þar til við stoppuðum hjá Eyjafjallajökli. Þar skoðuðum við okkur um, tókum myndir o.fl.

Þegar á áfangastað var komið var tekið mjög vel á móti okkur af sönnum Garðbæingi. Allir völdu sér skála og komu sér vel fyrir. Stuttu eftir komuna fundu allir til svengdar og grilluðu eða elduðu sér mat. Nokkrir fóru í stuttar fjallaklifursferðir, aðrir í fótbolta eða almennar gönguferðir.
Örfáir nemendur byrjuðu á litlu vatnsstríði sem endaði sem einn heljarinnar vatnsslagur sem vakti mikla kátínu hjá flestum.

Seinna um kvöldið tóku kennarar sig til og kveiktu varðeld. Þar var mikið fjör, spilað á gítar og sungið og sumir voru afar snjallir og grilluðu sér sykurpúða.
Seinna um kvöldið voru flestir í rólegheitum, spjölluðu saman, spiluðu á gítar og fleira skemmtilegt.
Morguninn eftir vöknuðu allir hressir og kátir, fengu sér góðan morgunmat og smurðu nesti. Síðan lögðum við af stað í frábæra gönguferð. Ferðinni var heitið í Langadal og á leiðinni var stoppað í Snorraríki þar sem nokkrir hugaðir klifruðu upp meðan aðrir fengu að heyra sögu hellisins. Frá Langadal var gengið á Valahnúk. Sumir styttu sér þó leið í kringum hann. Gangan tók nokkra tíma og var mjög skemmtileg þrátt fyrir margar neikvæðar hugsanir í byrjun.

Þegar úr göngunni var komið voru því miður engar nothæfar sturtur á svæðinu. En 10. bekkingar dóu þó ekki ráðalausir og bjuggu til einhvers konar sturtu úr heitri vatnsuppsprettu og enn aðrir fóru í Sönghelli og böðuðu sig í litlum fossi þar.

Um kvöldmatarleytið voru grillaðar pylsur ofan í allt liðið og allir borðuðu með góðri lyst. Seinna um kvöldið var haldin kvöldvaka þar sem mikið var sungið við gítarundirleik. Margir tóku undir það að kvöldvakan hafi verið mjög vel heppnuð.

Um kvöldið var mikið spjallað og sumir fengu að heyra nokkrar draugasögur að hætti Rósu. Eftir draugasögurnar voru nokkrir sammála um að kannski væri einhver þarna sem ekki hafði komið með rútunni úúúúúúú...

Eftir kvöldvökuna höfðu allir sína hentisemi, fóru í Sönghelli, spiluðu fótbolta eða höfðu það huggulegt innanhúss. Við skemmtum okkur saman það sem eftir lifði af nóttinni og þeir sprækustu voru að fram á morgun.
Um morguninn vakti Rósa okkur með látum milli níu og tíu og þá byrjuðu allir að pakka og hafa sig til fyrir heimferðina. Í rútunni var mikið fjör þrátt fyrir augljósa þreytu allra nemenda.

Allir voru einróma um að þessi ferð hafi verið tær snilld og hefðu helst viljað eyða miklu meiri tíma þarna.

Í ferðinni uppgötvuðu margir að kennarar geta verið alveg ágætar manneskjur – þessi uppgötvun kom mörgum á óvart  tíhí

Hér má sjá myndir úr ferðinni.

Jóhanna Dóra og Valdís Blöndal

Til baka
English
Hafðu samband