Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Foreldrafélag Garðaskóla
Fundur með bekkjarfulltrúum 11.10.2011 20:00

Mætt: Stjórn og bekkjarfulltrúar, alls 16 (7 frá 8. bekk, 4 frá 9. bekk, 2 frá 10.bekk), ásamt Gunnari Richardsyni frá Garðalundi.

Steinunn Bergmann er formaður stjórnar, aðrir eru Ágústa Björnsdóttir, Björn Heimir Björnsson, Dórothea Elva Jóhannssdóttir og Kristbjörg Ágústdóttir.

Steinunn ræddi almennt hlutverk foreldrafélags en það á sér stoð í 9. gr. grunnskólalaga. Handbók foreldrafélagsins frá árinu 2006 er aðgengileg á heimasíðu skólans en hún verður endurskoðuð í vetur m.t.t. nýrra grunnskólalaga frá árinu 2008. Skólaráð starfar einnig innan skólans og eiga foreldrar tvo fulltrúa í ráðinu, Ágústa Björnsdóttir er fulltrúi stjórnar foreldrafélagsins en það vantar fulltrúa foreldra utan stjórnar til setu í skólaráðinu. Áhugasamir eru hvattir til að gefa kost á sér við stjórn foreldrafélagsins eða skólastjóra Garðaskóla.

Hlutverk bekkjarfulltrúa er að stuðla að auknu samstarfi foreldra, kennara og nemenda innan hvers bekkjar. Mikilvægt er að bekkjarfulltrúar skipuleggi í samvinnu við fulltrúa nemenda og umsjónarkennara eina til tvær bekkjarskemmtanir á vetri. Á vefsvæði foreldrafélagsins er hugmyndabanki vegna bekkjarskemmtana.

Matarnefnd var sett á fót haustið 2010 til að fylgjast með fjölbreytni og gæðum matseðla og aðstöðu nemenda í matsal. Samningi við fyrri verksala var rift í sumar og samið við Skólamat í kjölfar útboðs. Skólamatur var áður með samning við Garðabæ svo þeir hafa talsverða reynslu. Matarnefnd hefur haldið einn fund með fulltrúum verksala í haust. Fulltrúar verksala lýstu sig tilbúna að vinna með foreldrum að þróun matseðla og töldu að með litlum breytingum gætu matseðlar uppfyllt viðmið þeirra skóla sem taka þátt í verkefninu heilsueflandi skóli sem lýðheilsustöð hefur þróað fyrir grunn- og framhaldsskóla. Stjórnin leitar að áhugasömum foreldrum til að taka þátt í starfi matarnefndar.

Gunnar kynnti Garðalund og félagsmál unglinga í skólanum. Reynt er að virkja krakkana í skipulagi viðburða. Að mati Gunnars er stundum verið að “dansa á línunni” varðandi hvað er gott og hvað gengur of langt, og hefur þannig stöku sinnum verið farið út fyrir mörkin (stelpukvöld, Lan-kvöld). Mikið er um að vera yfir veturinn, en oft einhver kostnaður. Nemendafélagið er sterkt og á góðar eignir.

Kynning á foreldrarölti, en tilgangur þess er að varna því að unglingar lendi í vanda og koma í veg fyrir hópamyndanir eftir löglegan útivistartíma. Hlutverk foreldra er að vera sýnileg og hringja á lögreglu ef kemur til aðstæðna sem krefjast afskipta. Foreldrarölt hefur alla jafna farið reglulega fram nokkra mánuði haust og vor allt eftir aðstæðum hverju sinni. Stjórnin skipuleggur foreldraröltið og deilir tilteknu kvöldi niður á nokkra bekki, síðan er það bekkjarfulltrúa að auglýsa eftir sjálfboðaliðum meðal foreldra innan bekkjarins. Stjórnin leitar eftir upplýsingum frá starfsmönnum Garðalundar um hvort ástæða sé til að gefa sérstakan gaum að viðburðum á vegum Garðalundar, sem gæti þá verið tilefni til að vera með öflugra eftirlit það kvöld. Fundarmenn samþykktu að standa að foreldrarölti í vetur.

Í framhaldi af ábendingu mun Gunnar leitast við að  bæta upplýsingar á heimasíðu Garðalundar þ.a. foreldrar eigi hægara um vik að sjá hvaða stóru viðburðir eru væntanlegir. Einnig kom fram hugmynd hvort hægt væri að senda tölvupóst á foreldra í gegnum Mentor þegar böll eða stærri viðburðir Garðalundar eru framundan.

Það er töluvert um að vera í 8.bekk og 10.bekk, m.a. með aðkomu foreldra, en í 9.bekk hefur ekki skapast hefð fyrir slíkt. Gerð var tilraun s.l. vetur til að koma á viðburði þar sem foreldar kæmu í skólann ásamt börnum sínum og ættu samverustund. Fundarmenn samþykktu að leitað yrði til skólans um að koma á viðburði í 9.bekk fyrir allan árganginn saman, fremur en að vera með bekkjarskemmtanir (ekkert er þó því til fyrirstöðu að öflugir bekkir haldi skemmtun sé það vilji nemenda og foreldra). Gott væri að festa einhvern slíkan viðburð í vetrarstarfinu. Ýmsar hugmyndir ræddar. Þetta verður rætt í skólaráði og mun fulltrúi stjórnar vera í sambandi við bekkjarfulltrúa 9. bekkja.

Fundi slitið 21:40

English
Hafðu samband