Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

1. grein

Félagið heitir Foreldrafélag Garðaskóla. Félagar teljast allir forráðamenn nemenda skólans.

2. grein

Markmið félagsins er að:

  • Vera samstarfsvettvangur foreldra sem eiga börn í skólanum
  • Efla og tryggja gott samstarf foreldra og starfsfólks skólans
  • Styðja heimili og skóla við að skapa nemendum góð uppeldis- og menntunarskilyrði
  • Koma á framfæri sjónarmiðum foreldra varðandi skóla- og uppeldismál
  • Standa vörð um réttindi barna til mennta og aukins þroska.
3. grein

Til að ná þessum markmiðum hyggst félagið m.a.:

  • Stuðla að auknum kynnum og efla samtarf nemenda, foreldra og starfsmanna skólans
  • Hafa frumkvæði að endurbótum og þróunarstarfi í samvinnu við skólayfirvöld
  • Kynna sér kennsluhætti og uppeldismarkmið skólans
  • Koma á umræðu- og fræðslufundum um uppeldis- og skólamál
  • Að veita skólayfirvöldum lið svo að aðstæður til náms og félagslegra starfa verði sem bestar hverju sinni
  • Styðja og efla lista- og menningarlíf innan skólans
  • Standa að kynningu á starfi Foreldrafélagsins á heimasíðu Garðaskóla, fréttabréfi og annars staðar eftir því sem við á
4. grein

Stjórn félagsins er skipuð fimm forráðamönnum barna skólans. Stjórnin skal skipuð formanni, ritara, gjaldkera og tveimur meðstjórnendum. Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi félagsins. Formaður skal kosinn til eins árs í senn. Aðrir stjórnarmenn skipta með sér verkum. Stjórnin skal kosin til tveggja ára í senn, tveir stjórnarmenn annað árið og þrír hitt árið. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum í öllum málum. Einn stjórnarmanna skal jafnframt vera fulltrúi félagsins í Samtökum foreldra í Garðabæ.

Tveir fulltrúar foreldra skulu kosnir í skólaráð sbr. 9. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla. Annar fulltrúi foreldra í skólaráði skal verðu úr röðum stjórnarmanna foreldrafélagsins. Skipa skal tvo varamenn foreldra í skólaráð.

 5. grein

Aðalfundur félagsins skal haldinn við fysta tækifæri í upphafi hvers nýs skólaárs. Stjórnin boðar til fundarins í samstarfi við skólaráð með minnst viku fyrirvara. Fundurinn er löglegur ef löglega er til hans boðað.

Í fundarboði skal kynna efni fundarins ásamt tillögum um næstu stjórn.

Verkefni aðalfundar eru:

  • Skýrsla stjórnar
  • Skýrslur nefnda
  • Reikningar
  • Breytingar á samþykktum félagsins
  • Kosning stjórnarmanna foreldrafélagsins
  • Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga 
  • Skýrsla skólaráðs
  • Kosning fulltrúa í skólaráð
  • Önnur mál.

Á fundi má koma með tillögur um aðra stjórnarmenn en fram koma í fundarboði. Kosningar skulu vera skriflegar. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum í öllum málum.

6. grein

Stjórn foreldrafélagsins getur skipað í nefndir um afmörkuð verkefni og ber ábyrgð á störfum þeirra.

7. grein

Stjórn félagsins skal funda a.m.k. einu sinni í mánuði.

8. grein

Stjórn foreldrafélagsins ber ábyrgð á að í upphafi skólaárs séu kosnir þrír fulltrúar foreldra eða forráðamanna úr hverri bekkjardeild til eins árs í senn. Hlutverk bekkjarfulltrúa er að efla og styrkja samstarf foreldra og barna og leitast við að treysta samband heimilis og skóla innan hverrar bekkjardeildar með nánu samstarfi við umsjónarkennara. Bekkjarfulltrúar mynda fulltrúaráð foreldrafélagsins. Stjórn félagsins setur bekkjarfulltrúum starfsreglur.

9. grein

Fulltrúaráðið skal koma saman eigi sjaldnar en tvisvar á skólaárinu og oftar ef þurfa þykir. Fyrsti fundur skal haldinn í upphafi skólaárs. Stjórn félagsins undirbýr og boðar til þessara funda. Þar skulu rædd mál er varða markmið og starf foreldrafélagsins, starf foreldra í bekkjardeildum og verkefni foreldraráðs. Eitt af verkefnum fulltrúaráðs er að aðstoða stjórn félagsins í stærri verkefnum og standa fyrir einni samkomu á vetri fyrir foreldra, nemendur og kennara

10. grein

Stjórn félagsins getur sinnt ágreiningsmálum sem upp kunna að koma og varða félagsmenn. Mun hún beita sér að lausn þeirra í nánu samstarfi við skólayfirvöld og þá þjónustuaðila sem við á hverju sinni.

11. grein

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi, enda sé það tilkynnt í skriflegri fundarboðun með minnst sjö daga fyrirvara. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.

12. grein

Stjórn foreldrafélagsins er heimilt að óska eftir því að foreldrar greiði framlag til félagsins. Þetta framlag er innheimt árlega og ákveðið á aðalfundi.

13. grein

Ákvörðun um slit félagsins verður tekin með einföldum meirihluta á stórnarfundi og renna þá eignir þess til Garðaskóla.

 

 

Samþykkt á aðalfundi Foreldrafélags Garðaskóla á framhaldsaðalfundi 15. september 2005. Breytt á aðalfundi: 3. apríl 2006, 31. maí 2010. Breytt á aðalfundi 22. nóvember 2022.

English
Hafðu samband