Jafnréttisáætlun Garðaskóla
Jafnrétti er einn af grunnþáttum menntunar og horfa ber til þess í víðum skilningi. Í öllu starfi Garðaskóla er unnið að því að allir aðilar skólasamfélagsins njóti mannréttinda og jafnréttis án tillits til fötlunar, kynferðis, kyngervis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Samkvæmt lögum nr. 10/2008 (sjá https://www.althingi.is/lagas/nuna/2008010.html) um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla ber skólanum að setja sér jafnréttisáætlun og flétta jafnréttissjónarmið inn í starfsmannastefnu sína. Garðabær setur sveitarfélaginu jafnréttisáætlun sem einnig er tekið mið af í starfi Garðaskóla, sjá gildandi stefnu á vef Garðabæjar: https://www.gardabaer.is/stjornsysla/utgefid-efni/stefnur/.
Markmið jafnréttisáætlunar er að tryggja að jafnréttis sé gætt í hvívetna í Garðaskóla. Unnið er að því að nemendur, starfsfólk og aðrir aðilar skólasamfélagsins geti notið sín sem einstaklingar í uppbyggilegu samfélagi. Jafnrétti kynjanna er tekið sérstaklega til skoðunar í áætluninni vegna ákvæða í lögum og vegna þess að hlutverk þeirra mótast ennþá af staðalímyndum sem geta heft sjálfsmynd einstaklinga af öllum kynjum. Í Garðaskóla skal halda sem jöfnustu hlutfalli kynjanna í öllu starfi skólans. Markvisst skal unnið að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum skólans en hægt er að kynna sér betur hugtakið á https://www.jafnretti.is/. Öll mismunun er óheimil, í hvaða formi sem hún birtist og skal vinna á virkan hátt gegn slíkri mismunun. Ofbeldi eða áreitni, kynbundin og af öðru tagi, er ekki liðin. Með jafnréttisáætlun skólans er unnið markvisst að því að breyta hefðbundnum staðalmyndum og að vinna gegn neikvæðum viðhorfum til afmarkaðra hópa.
Fyrsta jafnréttisstefna Garðaskóla var unnin í víðtæku samráði innan skólans árin 2010-2012. Tveir þáverandi starfsmenn, Margrét Gauja Magnúsdóttir og Sturla Þorsteinsson, settu saman stefnu sem borin var undir nemendur og starfsfólk, samþykkt á starfsmannafundi og staðfest af Fjölskylduráði Garðabæjar 2012. Í samræmi við lög hefur heiti stefnunnar verið breytt í Jafnréttisáætlun en yfirlýsingin byggir ennþá á þeim grunni sem fyrsta jafnréttisnefnd skólans lagði.
Jafnréttisáætlun Garðaskóla inniheldur aðgerðaráætlun sem uppfærð er þriðja hvert skólaár og ávallt er aðgengileg á vef skólans: http://gardaskoli.is/skolinn/skolanamskra-og-tengt-efni/jafnrettisstefna/. Jafnréttisáætlun Garðaskóla er í þremur hlutum:
- Garðaskóli sem menntastofnun.
- Garðaskóli sem vinnustaður.
- Aðgerðaráætlun 2018-2021.
Í samræmi við lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er jafnréttisáætlun Garðaskóla, ásamt þeirri jafnréttisstefnu sem birtist í starfsmannastefnu (sjá http://gardaskoli.is/skolinn/skolanamskra-og-tengt-efni/handbok-starfsmanna/) endurskoðuð á þriggja ára fresti. Næsta endurskoðun fer fram árið 2021.
Áætlunina má lesa í heild hér: Jafnréttisáætlun Garðaskóla 2019-2021