Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Garðaskóli hóf starfsemi 11. nóvember 1966 í húsnæði við Lyngás í Garðabæ. Hann hét í upphafi Gagnfræðaskóli Garðahrepps og fyrsta árið voru nemendur skólans 115. Nafni skólans var breytt í Garðaskóla eftir að Garðahreppur breyttist í Garðabæ og fékk kaupstaðarréttindi 1976.

Nemendur Garðaskóla koma úr öllum hverfum bæjarins og urðu flestir tæplega 740 skólaárið 2003-2004. Tólf ára nemendur stunduðu nám við Garðaskóla frá 1984-2005 og unglingar af Álftanesi sóttu Garðaskóla frá 1966 til 2006. Skólaárið 2022-2023 stunda um 615 nemendur nám við skólann.

Upphaflega húsnæði Garðaskóla við Lyngás var stækkað um helming með viðbyggingu árið 1970 en fyrsti áfangi núverandi skólahúsnæðis við Vífilsstaðaveg var tekinn í notkun 1976. Hönnuður hússins er Manfreð Vilhjálmsson arkitekt. Skólinn stendur á sömu lóð og íþróttamiðstöðin Ásgarði og nýtur góðs af nábýlinu við frábæra aðstöðu til íþróttaiðkunar. Bókasafn bæjarins var lengi rekið í húsnæði skólans og var jafnframt skólasafn þar til það flutti á Garðatorg og bókasafn skólans var sett upp í kjölfarið. Skólabjalla var lögð af í húsnæði skólans 1981 og bjalla hefur því ekki hringt í skólanum í rúmlega 30 ár.

Félagsmiðstöðin Garðalundur var stofnuð árið 1986 og hefur síðan deilt húsnæði með Garðaskóla. Starfsemi skólans og Garðalundar hefur fléttast náið saman og báðir aðilar lagt kapp á að skapa jákvæðan og uppbyggilegan vettvang til náms og félagslífs fyrir unglinga í Garðabæ.

Árið 1978 voru stofnaðar framhaldsdeildir við Garðaskóla og nefndar Fjölbrautir Garðaskóla. Nemendur gátu lokið þar tveggja ára námi en urðu síðan að leita til annarra skóla. Framhaldsdeildirnar voru fyrirrennari Fjölbrautaskólans í Garðabæ (FG) sem stofnaður var á grunni þeirra 1984.  Fjölbrautir Garðaskóla gátu í samstarfi við Flensborg útskrifað stúdenta. Þrír nemendur luku þannig námi til stúdentsprófs frá Garðaskóla vorið 1982 og aðrir 13 bættust við í desember sama ár. Vorið 1983 útskrifuðust um 20 stúdentar frá skólanum. Garðaskóli er trúlega eini grunnskóli landsins sem hefur náð að útskrifa stúdenta.

Hópakerfi með áfangasniði hefur verið við lýði í skólanum síðan fjölbrautirnar tóku til starfa. Kerfið gerir skólanum kleift að sníða námsframboð og -hópa að ólíkum þörfum og áhuga nemenda. Fjölbrautaáfangar eru ennþá kenndir í skólanum og gera nemendum kleift að stytta námstímann til stúdentsprófs. Náið samstarf Garðaskóla við FG hefur haldist alla tíð.

Garðaskóla hefur haldist ákaflega vel á starfsfólki. Sem dæmi má nefna að þegar Þröstur V. Guðmundsson aðstoðarskólastjóri lauk störfum sumarið 2011voru 39 ár síðan hann tók við starfi raungreinakennara við skólann. Kynjahlutföll starfsmanna hafa verið nokkuð jöfn og kennarar hafa verið mjög vel menntaðir á sérsviðum sínum.

Gunnlaugur Sigurðsson varð skólastjóri við stofnun skólans og þróaði megindrætti í starfi hans. Gunnlaugur hlaut árið 2011 íslensku menntaverðlaunin fyrir framlag sitt til þróunar skólastarfs á Íslandi. Ragnar Gíslason tók við af Gunnlaugi í janúar 2002 og leiddi áfram áherslu skólans á sterka faggreinakennslu og fjölbreytt námsframboð. Ragnar innleiddi uppbyggingarstefnuna sem festi í sessi jákvæðan skólabrag. Kannanir Skólapúlsins, niðurstöður samræmdra prófa og PISA kannana staðfesta að nemendur Garðaskóla eru jákvæðir gagnvart skólanum, líður þar vel og ná miklum árangri. Ragnar lét af störfum vegna veikinda í janúar 2014 og þá tók Brynhildur Sigurðardóttir við sem skólastjóri. Hún hafði þá leyst af við stjórnun skólans í nokkur misseri og það hafði sömuleiðis gert Þröstur Guðmundsson sem starfaði við skólann í 39 ár, lengst af sem aðstoðarskólastjóri. Brynhildur lét af störfum árið 2020 og við tók núverandi skólastjóri Jóhann Skagfjörð.

Heimildir:

Garðaskóli heldur upp á 40 ára afmæli. (9. nóvember 2006). Sótt á vefinn janúar 2014: http://dev.gardabaer.is/frett/~/NewsID/1721

Saga Fjölbrautaskólans í Garðabæ, sótt á vefinn í janúar 2014: http://www.fg.is/skolinn/saga-skolans/

English
Hafðu samband