Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Gildi Garðaskóla

Haustið 2012 hófu starfsmenn Garðaskóla vinnu við að skilgreina gildi Garðaskóla. Tilgangurinn var að draga saman einkennisorð skólans sem síðan væri hægt að vísa til í stefnumótun og daglegu starfi. Vorið 2013 drógu starfsmenn saman sínar niðurstöður og voru þær kynntar nemendum og forráðamönnum skólaárið 2013-2014. Haustið 2014 lögðu nemendur skólans fram sínar hugmyndir um hver gildin ættu að vera og vorið 2015 voru hugmyndir nemenda og starfsmanna kynntar foreldrum á nýjan leik til umsagnar. Skólaráð og nemendaráð Garðaskóla tóku endanlega ákvörðun um gildi Garðaskóla á sameiginlegum fundi sínum vorið 2015.

Samþykkt á fundi skólaráðs 1. júní 2015

FRELSI

ÁBYRGÐ

VELLÍÐAN

ÁRANGUR

Gildi Garðaskóla eru fjögur orð, hvert þeirra stendur fyrir eitthvað stórt og mikilvægt. Gildin leiðbeina okkur áfram, vísa veginn til að gera hvern dag góðan og lífið allt uppbyggilegt og gott. Í gildunum fjórum birtast líka ákveðnar andstæður, það er togstreita á milli þeirra.

FRELSI

Frelsi er gildi sem Íslendingar meta mikils, þeir vilja vera frjálsir og sjálfstæðir. Hver einstaklingur á að fá tækifæri til að skapa sjálfan sig og birta sjálfan sig á þann hátt sem hann hefur þörf fyrir. Nemendur og starfsmenn Garðaskóla vilja fá tækifæri til að gera það sem finnst skemmtilegast. Þegar fólk hefur frelsi í störfum sínum hér í skólanum og fær að velja sína leið sjálft þá líður því best, afköstin verða mest og sköpunin nær hámarki.

En frelsi er aldrei ótakmarkað. Ótakmarkað frelsi er hömluleysi og í slíku ástandi líður öllum illa.

ÁBYRGÐ

Ábyrgðin felur í sér nauðsynlegt taumhald á frelsinu. Þegar fólk gengur frjálst til verka ber það líka ábyrgð á þeim. Í Garðaskóla afsökum við ekki framkomu okkar, við erum stolt af verkum okkar, við kennum ekki öðrum um það sem fer úrskeiðis og við forðumst ekki áskoranir. Við stöndum með sjálfum okkur sem ábyrgir einstaklingar.

Frelsið og ábyrgðin togast á. Í Garðaskóla eru ekki mörg skilti á veggjum sem segja okkur fyrir verkum. Við höfum oftast nær frelsi til að ákveða sjálf hvort við göngum frá diskunum okkar eftir matinn og ábyrgir einstaklingar ávkeða að sleppa því ekki. Ábyrgir einstaklingar taka ákvarðanir með heildina í huga og sjá sjálfa sig sem mikilvægan hluta af þessari heild. Frelsið gefur okkur vellíðan og gleði en ábyrgðin gerir okkur mikilvæg.

Það er mjög mikilvæg að hver og einn finni að hann er mikilvægur. Ábyrgðin á ekki bara við hér í skólanum, í matsalnum og kennslustofunni. Hún er grundvallaratriði heima hjá okkur og úti að borða með vinunum. Á hverju augnabliki ber hvert okkar ábyrgð á sjálfu sér, það er í okkar höndum að gera líf okkar stöðugt betra.

VELLÍÐAN

Þegar frelsið og ábyrgðin eru í góðu jafnvægi gengur lífið vel. Einstaklingurinn er sáttur í verkefnum sínum og nýtur ávaxtanna af þeim. Þetta jafnvægi milli frelsis og ábyrgðar gefur góðan grundvöll til að standa á, jafnvægið gefur okkur vellíðan.

Vellíðan nemenda og starfsfólks Garðaskóla er víðtækt verkefni. Við viljum að vellíðan varði jafnt líkamlega þætti, andlega og félagslega. Samstarf skólans við félagsmiðstöðina Garðalund er mikilvægt í þessu sambandi. Heilsuefling skólans snertir á öllum þessum þáttum og allir starfsmenn koma að því verkefni að tryggja alhliða vellíðan nemenda skólans. Hreyfing er byggð inn í hvern skóladag og vel er fylgst með félagslegri stöðu hvers nemanda. Húsnæðið þarf að vera gott til náms og starfa, starfsfólk þarf að hlusta á nemendur og koma málum þeirra í farveg eftir þörfum. Nemendaverndarráð fylgist vel með þeim málum sem upp kunna að koma hjá nemendum skólans og virkjar net sérfræðinga til að leysa þau eins og hentar í hverju tilviki.

ÁRANGUR

Þegar fólki líður vel getur það náð hámarks árangri. Þetta á jafnt við um nemendur sem starfsfólk Garðaskóla. Í skólanum er stefnt að árangri á fjölbreyttum sviðum: í námi, félagslífi og eflingu sterkrar sjálfsmyndar hvers og eins. Fagkennarar skólans stýra námi og kennslu í samræmi við kröfur Aðalnámskrár og í takti við þarfir nemenda. Gæðanefnd skólans nýtir kannanir Skólapúlsins til að fylgjast með viðhorfum nemenda, forráðamanna og starfsmanna til fjölbreyttra atriða í daglegu skólastarfi. Áherslur hvers skólaárs eru settar með tilliti til niðurstaðna kannana og í samræmi við heildarstefnu skólans.

English
Hafðu samband