Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Tölvu- og netstefna Garðaskóla

Garðaskóli vinnur markvisst að því að auka þátt upplýsingatækni í skólastarfi og hvetur nemendur til að nýta sér tækjabúnað og þráðlaust net skólans við nám sitt og undirbúning fyrir framtíðina. Til að tryggja öruggt tölvuumhverfi hefur skólinn mótað tölvu- og netstefnu í samráði við Tölvudeild Garðabæjar. Þessi stefna er sett fram með það að markmiði að notendur temji sér góða siði og taki ábyrgð á umgengni og notkun sinni á tækjabúnaði og neti.

Nemendur, foreldrar og starfsmenn fá reglulega fræðslu og forvarnir um ábyrga netnotkun. Af gefnu tilefni er tekið fram að öll notkun og birting á rafrænum miðlum er ábyrgðarhluti og gildir sú ábyrgð hvort sem um er að ræða notkun á neti Garðaskóla, þráðlausu neti Garðabæjar eða persónulegu fjarskiptaneti nemanda.

Aðgangur nemenda að tækjabúnaði og neti Garðaskóla

Tækjabúnaður Garðaskóla er eign skólans og ætlaður til náms, kennslu, kynninga og annars sem samræmist markmiðum skólans. Nemendur sem vinna að verkefnum vegna náms hafa forgang að tækjum skólans.

  • Nemendur fá leyfi frá kennurum og starfsmönnum skólans til að nota tækjabúnað Garðaskóla og skulu umgangast hann af virðingu.
  • Allir nemendur hafa eigið notendanafn og netfang í tölvukerfi Garðaskóla og eru ábyrgir fyrir allri notkun þess.
  • Einelti eða önnur misnotkun á neti (s.s. niðurhal og dreifing á höfundavörðu efni) verður ekki liðin. Heimilt er að rekja notkun og gagnamagn til einstakra notenda og óeðlileg notkun er tilkynnt til skólastjórnenda og forráðamanna.
  • Skólinn áskilur sér rétt til að fara yfir, skoða og jafnvel eyða gögnum á gagnasvæðum nemenda.
  • Forðast skal að hafa gagnaflutninga inn á netkerfi skólans svo umfangsmikla að þeir valdi óþarfa álagi.
  • Skoðun efnis sem höfðar til kláms, ofbeldis eða grefur undan almannaheill er ekki leyfileg.
  • Verði nemandi uppvís að því að skemma tækjabúnað skólans þarf hann og forráðamenn hans að bæta tjónið.


Aðgangur nemenda að þráðlausu neti Garðabæjar með eigin tæki

Til að komast inn á þráðlausa netið (BYOD), með eigin snjallsíma, spjaldtölvu eða fartölvu, nota nemendur sama notendanafn og lykilorð og veitir þeim aðgang að tölvukerfi skólans. Um leið samþykkja þeir að hlíta ofangreindum reglum skólans er varða tölvu- og netkerfi hans.

Forráðamenn sækja um aðgang að BYOD netkerfinu í gegnum Minn Garðabær. Afgreiðsla umsóknar getur tekið nokkra virka daga. Með undirskrift samþykkja forráðamenn að tækið sé alfarið á ábyrgð nemenda og að tölvudeild Garðabæjar hafi leyfi til að kanna netnotkun nemenda, vakni grunsemdir um óeðlilega notkun á meðan tæki er á þráðlausu BYOD neti Garðabæjar.

  • Nemendum Garðaskóla er heimilt að nota, vegna vinnu sinnar, tölvubúnað/snjalltæki í einkaeigu á þráðlausu netkerfi Garðabæjar.
  • Nemendur mega, með leyfi kennara og starfsmanna, nota tölvubúnað/snjalltæki í kennslustundum en eiga annars að stilla þau á hljóðlaust (e. Silent) eða slökkva á þeim.
  • Mynd- og hljóðupptökur í kennslustundum eru einungis heimilaðar með leyfi kennara eða starfsmanns.
  • Einelti eða önnur misnotkun á neti (s.s. niðurhal og dreifing á höfundavörðu efni) verður ekki liðin og áskilur skólinn sér rétt til að grípa inn í ef nemandi verður uppvís að slíku atferli. Tölvudeild Garðabæjar hefur heimild til að rekja notkun og gagnamagn beint til notenda.
  • Nemendatæki sem koma inn á þráðlaust net skóla eru á eigin ábyrgð varðandi öryggi, þjófnað, skemmdir og vírusvarnir. Garðabær eða Garðaskóli bera enga ábyrgð á tækjum í einkaeigu þó notkun hafi verið heimiluð.
  • Brot á reglum um notkun á þráðlausu BYOD neti Garðabæjar getur afturkallað leyfi um aðgang.

 

English
Hafðu samband