Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Mat á skólastarfi er liður í lögbundnu eftirlitsstarfi skóla og skólayfirvalda sem hefur þann tilgang að tryggja réttindi nemenda og stuðla að skólaumbótum. Í lögum nr. 91/2008 um grunnskóla10. kafla aðalnámskrár grunnskóla og skólastefnu Garðabæjar frá 2010 er að finna ákvæði um mat á skólastarfi. Markmið mats og eftirlits er einkum þríþætt. Í fyrsta lagi að fylgjast með að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár. Í öðru lagi að auka gæði skólastarfsins og stuðla að umbótum, tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum. Í þriðja lagi að veita upplýsingar um skólastarfið, árangur þess og þróun.

Í innra mati skal gera grein fyrir tengslum við þau markmið sem sett eru fram í skólanámskrá. Hver skóli þróar aðferðir sem taka mið af sérstöðu skólans til að meta hvort og að hve miklu leyti markmiðunum hefur verið náð. Aðferðir við innra mat taka mið af þeim viðfangsefnum sem unnið er að hverju sinni. Innra mati skóla skal lýst í skólanámskrá. Í starfsáætlun skólans fyrir hvert skólaár á að koma fram hvaða þættir eru viðfangsefni innra mats.

Gæðanefnd Garðaskóla í samstarfi við skólastjóra skipuleggur innra mat skólans og semur sjálfsmatsáætlun. Gerð er grein fyrir innra mati skólans í ársskýrslu sem aðgengileg er á vef skólans. Ársskýrslan er einnig til útláns frá bókasafni skólans.

Ytra mat er á ábyrgð Mennta- og menningarmálaráðuneytis og eftir atvikum sveitarfélaga sem bera ábyrgð á rekstri skóla. Matið skal byggjast á fjölbreyttum gögnum og upplýsingum s.s. niðurstöðum innra mats og öðrum skriflegum gögnum frá skólum, heimsóknum í skóla og viðtölum eftir því sem við á og athugun á kennslu.

(Bls. 26-27, Starfsáætlun Garðaskóla 2013-2014)


 

 

English
Hafðu samband