Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Pistill skólastjóra á heimasíðu í september 2010

15.09.2010
Pistill skólastjóra á heimasíðu í september 2010:


Heimanám – tilefni til umræðu?

Í Garðaskóla fer nú fram á ýmsum vígstöðvum umræða um innra starf skóla í tengslum við endurskoðun aðalnámskrár og innleiðingu nýrrar skólastefnu Garðabæjar. Meðal annars ræða skólamenn tilgang og stefnu um heimanám nemenda. Sú umræða nær ekki aðeins til okkar í Garðaskóla heldur á hún sér stað víða um hinn vestræna heim a.m.k. – og sitt sýnist hverjum!

Hér á landi er löng hefð fyrir því að nemendum í grunnskólum sé sett fyrir vinna heima fyrir, jafnvel daglega. Margir skólar hafa að vísu mótað þá stefnu að setja ekki fyrir heimanám um helgar; sumir skólar hafa á stundum boðið upp á aðstoð við heimanám í skólanum og þeirra á meðal hefur Garðaskóli verið.
Frá foreldrum berast misvísandi skilaboð um nám heima fyrir því í þeirra hópi eru bæði foreldrar sem hafa áhyggjur af of litlu heimanámi á meðan aðrir kvarta undan miklu álagi.
Skólastjóri telur að með lengingu á þeim tíma sem varið er til grunnskólanáms þurfi eðlilega að skoða tilgang og eðli heimanáms. Með lengingu skólatíma í hverri viku og á árinu hefur tími nemenda til annarra viðfangsefna styst og á sama tíma hefur framboð á hvers kyns tómstundum og íþróttum stóraukist. Ef aukinni afþreyingu (Netinu, tölvuspjalli, tölvuleikjum og sjónvarpi) er bætt við þá er ljóst að tími nemenda til slökunar, næringar og svefns hefur minnkað. Við í skólanum finnum að margir nemendur eiga í síauknum mæli erfitt með að skipuleggja tíma sinn og margt gefur eftir, meðal annars vandað heimanám.

Skólastjóri telur að heimanám eigi að vera hluti skólastarfs, en til hvers? Þeirri spurningu má svara á eftirfarandi hátt:

1 – Heimanám er til að ljúka óunnum verkefnum í skólanum.
2 – Heimanám felst í að vinna verkefni sem festa námsatriði betur í minni.
3 – Heimanám er til að undirbúa efni kennslustundar s.s. með lestri kafla námsbókar.
4. – Heimanám er til að temja nemendum sjálfstæði og sjálfsaga í vinnu.
5 – Síðast, en ekki síst, gefur heimanám foreldrum tækifæri til að fylgjast með námi unglinganna og styðja þá eftir megni.

Spurningin er því kannski ekki hvort heimanám eigi að vera, heldur hvernig því verði best hagað?
Skólastjóri telur að hóflegt og vel skipulagt heimanám gefi foreldrum færi á að nálgast þau viðfangsefni sem börn þeirra glíma við í skólanum. Á hinn bóginn telur skólastjóri eðlilegt að nemendur fái tækifæri til að ljúka sem mestu af vinnu sinni í skólanum, helst undir leiðsögn kennara. Draumastaðan væri að á stundaskrá hvers nemenda væri tími sem ætlaður væri til að ljúka verkum og vinna viðbótarverkefni. Nemendur lykju þessu á skólatíma en fengju það verkefni að sýna foreldrum sínum vinnu sína sem þeir hafa lokið í skólanum. Nemendur gætu þá notið betri frítíma og hvíldar og kæmu örugglega undirbúnir í skólann daginn eftir. Trúlega hafa allnokkrir lesendur þessara orða einhvern tímann upplifað þá einkar slæmu tilfinningu sem fylgir því að hafa ekki lokið tilskilinni heimavinnu í skóla.
Í Garðaskóla hafa stjórnendur árlega reynt að nýta úthlutuðan kennslutíma til að bjóða nemendum upp á aðstoð við heimanám eftir hefðbundinn skólatíma. Einnig hafa nemendur margir nýtt sér eyður í stundaskrá til að vinna að verkefnum heimanáms. Aðstoð við heimanám í skólanum hefur ekki verið auglýst í vetur - en ef svigrúm leynist í nýtingu kennslutíma mun slíkt verða sett á fót og kynnt nemendum og foreldrum þeirra.

Formleg stefna um heimanám í Garðaskóla er einföld: Í Garðaskóla setja kennarar fyrir heimanám, en þeir eiga að hafa verkefni hófleg þannig að þau rúmist innan þess tíma sem nemendur hafa utan skólatíma. Kennarar reyna eftir bestu getu að samræma fyrirlagningu skyndiprófa þannig að fjöldi þeirra sé takmarkaður í hverri viku. Aldrei verður þó hjá því komist að í skólastarfinu skiptist á annatímar og rólegri stundir. Heimanám nemenda í Garðaskóla er skráð í Mentor og nemendur eru einnig hvattir til að skrá heimanám hjá sér í dagbók eða „skólakompu.“


Með skólakveðju


Ragnar Gíslason, skólastjóri


ragnar@gardaskoli.is
Til baka
English
Hafðu samband