Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Námsmat í Garðaskóla

- brot úr skólanámskrá

6.        Markmið náms

Nám og kennsla eru skipulögð samkvæmt tilmælum Aðalnámskrár og miðar að því að nemendur nái við lok 10. bekkjar þeirri hæfni sem lýst er með matsviðmiðum námskrárinnar[1]. Áætlanir hópa eru samræmdar innan fagdeilda og birtar á vef skólans. Í fjölbreyttum verkefnum vinna nemendur að því að auka þekkingu sína og efla leikni þannig að hæfni þeirra á margvíslegum sviðum aukist dag frá degi. Í nútíma skólastarfi er mikil áhersla lögð á að vinna með fjölbreyttari þætti en bara þekkingu – ætlast er til að skólar kenni nemendum að afla og beita þekkingu og leikni á fjölbreyttan og gagnrýninn hátt. Markmið náms og viðmið um námsárangur eiga þar að auki að vera sýnileg nemendum á öllum stigum námsins svo þeir geti sjálfir tekið ábyrgð á námsframvindu sinni.

6.1      Námsáætlanir og einstaklingsáætlanir

Í námsáætlunum faghópa er gerð grein fyrir markmiðum og skipulagi náms og kennslu. Þar má sjá m.a. nöfn og netföng kennara; lýsingu á þeirri hæfni á námssviðinu og lykilhæfni sem stefnt er að á tímabilinu; yfirlit um verkefni skólaársins og tímasetningar á skilum nemenda vegna námsmats; nánari lýsingu á námi og kennslu; viðmið um heimanám; og ýmislegt fleira. Námsáætlunin lýsir forsendum námsmats í hverjum námshópi.

Þegar námslegar þarfir einstaklinga víkja verulega frá því sem lýst er í námsáætlunum hópa og árganga er sett saman einstaklingsáætlun fyrir viðkomandi. Slík áætlun er ávallt unnin í samráði við nemandann sjálfan og forráðamenn hans og undirrituð af forráðamönnum.


[1] Námsmatsvefur Menntamálastofnunar: http://vefir.nams.is/namsmat/matsvidmid.html. Sótt á vefinn 17. janúar 2017.

 

7.        Námsmat

Námsmat er órjúfanlegur hluti af námi og kennslu[1]. Það þjónar þeim tilgangi að gefa nemendum upplýsingar um stöðu sína í náminu og leiðbeina þeim um hvernig haldið skal áfram til að auka hæfni enn frekar. Í námsáætlunum er gerð grein fyrir þeim matstækjum sem nýtt eru til að meta námsframvindu í hverri faggrein. Áhersla er lögð á að samræmi sé í námsmati milli hópa. Frávik frá almennum viðmiðum til námsmats eru skilgreind í einstaklingsnámskrám þar sem það á við.

Námsmat í fjölbrautaáföngum sem kenndir eru í Garðaskóla er frábrugðið námsmati í grunnskólanáminu, enda fylgir það viðmiðum Aðalnámskrá framhaldsskóla[2].

7.1      Matsviðmið og einkunnir

Í hverri faggrein eru fjölmörg matsviðmið sem stefnt er að. Í matsviðmiðum fyrir íslensku eru til dæmis viðmið um hæfni í lestri bókmennta sem lýst er svo[3]:

C

B

A

Nemandi getur lesið almenna texta með sæmilegum skilningi og túlkun á efni þeirra að nokkru marki, fjallað um íslenskar og erlendar bókmenntir og gert sér nokkra grein fyrir gildi bókmennta í menningu þjóðarinnar.

Nemandi getur lesið almennan texta, og sýnt góðan skilning og túlkað efni hans, fjallað um íslenskar og erlendar bókmenntir og gert sér góða grein fyrir gildi bókmennta í menningu þjóðarinnar.

Ne mandi getur lesið af öryggi almennan texta, með mjög góðum skilningi og túklkun á efni þeirra, fjallað um íslenskar og erlendar bókmenntir á gagnrýninn hátt og gert sér mjög góða grein fyrir gildi bókmennta í menningu þjóðarinnar.

 

Einkunnir eru gefnar í bókstöfum (D, C, C+, B, B+ og A) og hver bókstafur vísar til lýsingar á hæfni nemenda (matsviðmiða):

 

Einkunnin C+ vísar til þess að nemandinn hafi náð öllum viðmiðum fyrir einkunnina A og að hluta til, en ekki alveg, viðmiðum fyrir einkunnina B. Sama skýring á við um einkunnina B+.

Stjörnumerktar einkunnir (t.d. C*) vísa til viðmiða í einstaklingsáætlun nemandans.

7.2      Hæfnimiðað nám

Matsviðmið Aðalnámskrár eru brotin niður í hæfniviðmið og svo áfram í markmið með einstökum verkefnum. Slík flokkun og uppbygging markmiða tengir dagleg viðfangsefni nemenda við þau stóru markmið sem skólastarf stefnir að.

Kennarar bera frammistöðu nemenda saman við matsviðmið þegar þeir gefa nemendum einkunnir fyrir verkefni og próf. Að vori eru allar slíkar einkunnir dregnar saman í lokaeinkunn á hverju námssviði. Einkunnir vísa til þeirrar hæfni sem nemandinn sýnir á þeim tíma sem einkunnin er sett fram. Lokaeinkunn er ekki dregin niður þótt nemandinn hafi sýnt minni hæfni fyrr á skólagöngunni, enda myndi slíkt gera lítið úr því ferli sem námið er.

Notkun viðmiða í framsetning á námsmati gerir ráð fyrir að námsmarkmiðin séu ávallt sýnileg nemendum og ýtir undir gegnsæi í samskiptum nemenda og kennara um framvindu í náminu. Hæfnimiðað námsmat bætir upplýsingagildi einkunna og samræmir vel einkunnagjöf milli skóla.

7.3      Námsframvinda

Lýsingar á þeim markmiðum sem stefnt er að í verkefnavinnu nemenda eru í námsáætlunum á vef skólans. Námsmat fyrir hvert verkefni er síðan birt í Innu jafnóðum og kennarar skila umsögnum og/eða einkunnum til nemenda. Þar safnast upp saga af framvinda nemandans og forráðamenn hafa skýran aðgang að gögnum. Tvisvar á ári, í október og janúar, hittast nemendur, forráðamenn og umsjónarkennari til að ræða markmið, árangur og framvindu náms.

Í Innu skoða nemendur og forráðamenn einkunnir fyrir einstök verkefni með því að fara í flísina „Hæfni“ á forsíðu vefsins. Við lok skólaárs má skoða samantekt á vitnisburði ársins ásamt lokaeinkunnum í samnefndri flís á forsíðu Innu.

7.4      Leiðsagnarmat

Kennarar leiðsegja nemendum á margvíslegan hátt til að tryggja stöðuga framvindu í náminu. Samtöl í verkefnavinnu, markmiðssetning  og sjálfsmat nemenda, einkunnir fyrir próf og verkefni eru allt tæki sem kennarar nýta til að tryggja að námsmatið sé leiðbeinandi fyrir nemendur.

7.7      Vitnisburður

Nemendur fá vitnisburð í lok skólaárs. Í lok 10. bekkjar er þessi vitnisburður jafnframt vottorð um lok skyldunáms. Á vitnisburðarblaði koma fram lokaeinkunnir nemenda auk skólasóknar og ástundunar. Í einhverjum tilvikum eru nemendum gefnar umsagnir.

Nemendur og forráðamenn geta einnig skoðað vitnisburð rafrænt á Námfúsi, í flísinni „Vitnisburður“.

7.8      Meðmælabréf

Við ákveðnar aðstæður þurfa nemendur að biðja skólann um meðmæli t.d. við flutning í skóla erlendis. Meðmælabréf gefa upplýsingar sem á einhvern hátt eru viðbót við þá greinargerð um hæfni nemenda sem fram kemur á vitnisburðarblöðum. Öllum umsóknum um meðmæli er vísað til skólastjóra sem afgreiðir þær og gefur út meðmæli fyrir hönd starfsmanna. Skólastjóri ber mál undir stjórnendur, námsráðgjafa og kennara eins og þörf er á og afgreiðir í samráði við þá.

Meðmælabréf eru gefin út af sérstökum ástæðum. Við útskrift úr 10. bekk er almennt ekki ástæða til að gefa út slík bréf. Framhaldsskólarnir taka meðmæli frá kennurum ekki til greina við inntökuferli á skólastigið. Meðmæli eru gefin út af sérstökum ástæðum á borð við:

  • Áföll eða aðrar tilfallandi ástæður hafa hamlað námsframvindu
  • Mikið misræmi er til staðar í hæfni nemandans og ástæða er því til að gera sérstaka grein fyrir styrkleikum viðkomandi.

[1] Aðalnámskrá grunnskóla. (2011/2013/2016). Reykjavík: Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Bls. 54.

[2] Aðalnámskrá framhaldsskóla. (2011/2015). Reykjavík: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

[3] Aðalnámskrá grunnskóla. (2011/2013/2016). Reykjavík: Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Bls. 120-121.

[4] Aðalnámskrá grunnskóla. (2011/2013/2016). Reykjavík: Menntamálaráðuneytið. Bls. 86.

 

Meira um námsmat

Menntamálaráðuneyti og Menntamálastofnun hafa gefið út kynningarefni vegna þeirra breytinga sem hafa orðið á kennsluháttum og námsmati á síðustu árum:

English
Hafðu samband