Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Markmið

Um er að ræða sjálfboðaliðastarf foreldra þar sem leitast er við að ná fram samstöðu þeirra á meðal um að virða reglur um útivistartíma barna og koma í veg fyrir hópamyndun unglinga eftir að lögbundnum útivistartíma er lokið.

Framkvæmd foreldraröltsins

Bekkjarfulltrúar hvers bekkjar eru ábyrgir fyrir því að foreldrar mæti í foreldrarölt fyrir sinn bekk. Bekkjarfulltrúar sendi tölvupóst á alla foreldra í viðkomandi bekk og óska eftir að foreldrar bjóði sig fram í foreldrarölt það kvöld sem bekkurinn hefur fengið úthlutað. Athugið að það er einfalt að senda tölvupóst á foreldra í gegnum Mentor-kerfið. Sjá leiðbeiningar hér.

Þeir sem rölta skulu helst ekki vera færri en fimm. Það er heppilegt að hittast kl. 22:00 fyrir framan Hagkaup, nema annar mætingarstaður hafi verið ákveðinn. Á föstudagskvöldum getur verið gagnlegt að hafa samband við starfsmenn Garðalundar sem geta upplýst og leiðbeint foreldrum (Garðalundur er lokaður á laugardögum). Farið er um Garðabæ fótgangandi eða akandi og litið eftir hvort ekki sé allt með felldu. Sjá meðfylgjandi upplýsingabækling. Engin hópamyndun barna eða unglinga eftir lögboðinn útivistartíma á að eiga sér stað.

Miða skal við að rölt verði starfrækt á föstudags- og laugardagskvöldum frá kl. 22.00 til miðnættis. Tímasetningin tekur mið af útivistartíma 13-16 ára unglinga, en þeir mega ekki vera á almannafæri eftir kl. 22.00 frá 1. september til 1. maí og eftir kl 24.00 frá 1. maí – 1. september. (undantekning ef þeir eru að koma af viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu.)

-

Búið er að skipta bekkjunum niður á föstudags- og laugardagskvöld. Sjá áætlunina hér (opnast í Google Docs). Athugið að úthlutunin gæti breyst lítillega, einhverjir dagar dottið út og aðrir komið inn í staðinn, t.d. eftir áramót.

English
Hafðu samband