Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Í námsveri starfa kennarar, þroskaþjálfar og stuðningsfulltrúar sem lúta stjórn deildarstjóra námsvers og starfa að verkefnum á sínu sérsviði. Námsverið hefur náið samstarf við náms- og starfsráðgjafa skólans, deildarstjóra árganga, hjúkrunarfræðing, sálfræðing, fagkennara og aðra sérfræðinga eftir þörfum.

Sérkennarar og þroskaþjálfar sinna auk kennslu stuðningi og ráðgjöf við nemendur, foreldra og samstarfsfólk. Nemendur og foreldrar geta kallað eftir ráðgjöf og viðtölum þegar þeim finnst þörf á því.

Starfsemi í námsverinu tekur á sig mjög fjölbreyttar myndir. Hér á eftir er upptalning á helstu úrræðum og verkefnum:

  • Stuðningstímar í námsveri fyrir 9. og 10. bekkinga: Allir nemendur í 9. og 10. bekk geta sótt um stuðning við nám í stærðfræði og íslensku í námsveri skólans. Umsóknum skal skila inn til deildarstjóra námsvers. Stuðningstímum er bætt inn í eyður í stundaskrá nemenda.
  • Stuðningur við nám í 8. bekk: Í 8. bekk er stuðningur við nám í íslensku og stærðfræði skipulagður inn í faghópana. Um miðja haustönn er nemendum skipt í hópa eftir námslegri getu og þeir sem þurfa sérkennslu fá hana í litlum hópi. Nemendur geta sótt um stuðning til deildarstjóra námsvers.
  • Íslenska sem annað mál: Nemendur sem tala íslensku sem annað mál eða þurfa stuðning í íslensku vegna búsetu erlendis geta sótt um aðstoð til deildarstjóra námsvers. Sjá nánar
  • Sérkennsla: Sérkennsla er skipulögð fyrir nemendur til að mæta skertri getu þeirra til að sinna námi skv. áætlunum árganganna. Þessi kennsla getur verið tímabundin eða til lengri tíma og gerð er grein fyrir henni í einstaklingsnámskrá viðkomandi nemenda til að tryggja samfellu í námi þeirra. Sérkennsla fer fram með ýmsu móti, allt eftir aðstæðum hverju sinni. Eðli málsins samkvæmt fer hún þó oftast fram einstaklingslega eða í litlum hópum.

Í sérkennslu felst að markmiðum er breytt frá áætlun árgangsins og námsefni lagað að námslegum þörfum nemandans. Í kjölfarið fylgir aðlagað námsmat. Sérkennsla hefur áhrif á framvindu nemandans í námi og er nauðsynlegt að huga sérstaklega að þessu fyrir útskrift úr grunnskóla þannig að nemandinn viti að hverju hann gengur þegar hann sækir um nám við framhaldsskóla. Sérkennsla fer aldrei í framkvæmd nema í góðu samráði við viðkomandi nemanda og með samþykki foreldra hans.

Námsversbekkir: Í ákveðnum tilvikum eru myndaðir litlir hópar nemenda sem þurfa mikinn og sértækan stuðning í skólanum. Námsversbekkur fær kennslu í kjarnagreinum í námsverinu en nemendur sækja valgreinar, íþróttir og verklegar greinar í almenna hópakerfi skólans. Auk þess er sérfræðiráðgjöf veitt í námsverinu og byggð inn í stundatöflu viðkomandi nemenda.

Félagsfærniþjálfun: Félagsfærni skiptir miklu máli í daglegu lífi og þess vegna þarf að efla og kenna félagsfærni þeim börnum og unglingum sem ekki hafa myndað eðlileg félagstengsl í hópi jafnaldra.  Þroskaþjálfar sjá um þessa kennslu í Garðaskóla. Til að efla félagsfærni þarf að gefa þjálfuninni góðan tíma og byggja upp traust á milli nemanda og þroskaþjálfa. Helst þarf nemandinn að eiga fasta tíma yfir ákveðið tímabil, sumir þurfa lengri tíma en aðrir. Grunnatriði er að einstaklingsmiða þjálfunina og setja raunhæf markmið fyrir hvern og einn.  Einkatímar eru stundum það sem þarf til en fyrir aðra henta fámennir hópar betur. 

Þroskaþjálfun: Með þroskaþjálfun er á fræðilegan og skipulegan hátt stefnt að því að koma fötluðum nemendum eða nemendum sem þurfa á þjálfun að halda til aukins alhliða þroska. Gengið er út frá því að allir geti nýtt sér reynslu sína, lært og þroskast. Í starfi sínu taka þroskaþjálfar annars vegar mið af þörfum hvers og eins og hins vegar þeim kröfum sem gerðar eru innan og utan skólasamfélagsins. Þroskaþjálfun felur m.a. í sér að gerðar eru markvissar þjálfunaráætlanir sem miða að því að auka hæfni einstaklinga til að takast á við starfið í skólanum og aðrar athafnir daglegs lífs. Deildarstjóri námsvers gerir stundaskrá fyrir þroskaþjálfa sem geta breyst nokkuð ört þar sem nemendur þurfa mismikla aðstoð.

Stuðningur frá stuðningsfulltrúa: Stuðningsfulltrúar styðja við starf bekkja undir leiðsögn kennara/þroskaþjálfa. Ýmist veita þeir nemendum með sérþarfir tilsjón og stuðning eða þeir styðja við það starf sem unnið í bekknum. Deildarstjóri námsvers gerir stundaskrá fyrir stuðningsfulltrúa sem geta breyst nokkuð ört þar sem nemendur þurfa mismikla aðstoð.

Séríþróttir og -sund: Skólinn býður upp á litla hópa í íþróttum og sundi fyrir nemendur sem hafa miklar sérþarfir í þessum greinum. Deildarstjórar árganga og námsvers skipuleggja þessa hópa.

Undanþága frá námsgrein: Í ákveðnum tilvikum er nemendum gefin tímabundin undanþága frá námi í tiltekinni námsgrein. Þetta er gert til að mæta skertri námsgetu eða öðrum sérþörfum. Í sumum tilvikum eru þessir nemendur með skertar töflur, en þá eru færri en 25 tímar á viku í stundatöflunni. Í öðrum tilvikum eru nemendur með óskertar töflur en fleiri tíma en lögbundið er í ákveðnum námsgreinum (t.d. íslensku, stærðfærði eða verklegum greinum). Umsóknir eru unnar í samráði foreldra við deildarstjóra námsvers. Umsóknir þurfa að vera skriflegar, eyðublað er á vef skólans.

Ákvörðun um undanþágu er ekki tekin nema að beiðni foreldra og í góðu samstarfi við þá. Skólastjóri ber ábyrgð á þeim undanþágum sem veittar eru í skólanum.

Sérúrræði á prófum: Deildarstjóri námsvers tekur við óskum frá nemendum og foreldrum um stuðning við próftöku. Sjá nánar

Önnur tilboð: Í skólanum er reynt að mæta þörfum nemenda eins og unnt er. Sem dæmi um önnur tilboð má nefna atvinnutengt nám fyrir elstu nemendur skólans, atferlismótun og félagsfærni.

Ef nemendur, foreldrar og/eða kennarar óska eftir eða mæla með annars konar stuðningi en nefndur er hér skal erindið borið undir stjórnendur skólans sem leggja sig fram um að hanna ný úrræði til að mæta þörfum hverju sinni.

English
Hafðu samband