Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Þegar nýr nemandi byrjar í Garðaskóla halda námsráðgjafar skólans utan um móttöku hans. Þetta gildir um nemendur sem tala ekki íslensku jafnt og íslenskutalandi. Námsráðgjafar bjóða nemandann og foreldra hans velkomna í skólann, sýna húsnæði, kalla eftir nauðsynlegum gögnum og upplýsingum og koma nemandanum í tengsl við aðra nemendur í skólanum.

Skólinn pantar túlkaþjónustu fyrir alla fundi með foreldrum.

Nemendur sem tala ekki íslensku fá íslenskukennslu í námsveri skólans. Deildarstjóri námsvers gerir áætlun í samráði við nemandann og foreldra hans um innkomu nemandans í almenna hópa og stuðning við nám hans. Áhersla er lögð á að nýr nemandi komist sem allra fyrst í góð tengsl við aðra nemendur í skólanum og að hann fái kennslu við hæfi í sem flestum námsgreinum.

Kennsla og félagsleg aðlögun nemenda sem koma erlendis frá:

  • Íslenskukennari og kennari sem kennir íslensku sem annað tungumál útbúa kennslumarkmið fyrir nemandann. Þeir skipuleggja námið ásamt deildarstjóra námsvers og umsjónarkennari heldur utan um félagslega aðlögun og samskipti við heimili.
  • Áhersla er lögð á að kennarar nýti rafrænar orðabækur, sjónrænt efni og myndrænar útfærslur í kennslu með nemendum sem eru að læra íslensku. Gott og náið samstarf er skipulagt á milli umsjónarkennara, sérgreinakennara og þeirra sem kenna íslensku sem annað tungumál. Nauðsynlegt er að byrja á að kenna og þjálfa nemandann í almennum orðaforða og samskiptum á íslensku og innleiða einnig eftir bestu getu skólamál og flóknari hugtök námsbóka.
  • Við félagslega aðlögun nemanda er nýtt aðferðin tveir í takt. Þá tekur íslenskur nemandi að sér að vera sérstakur félagi nýja nemandans í skólanum í lengri eða skemmri tíma. Í sumum tilfellum hafa íslensku nemendurnir verið afar vinsamlegir en nýi nemandinn sem kemur erlendis frá verið feimin við samskiptin. Gott er því að fara frekar hægt í sakirnar til að byrja með og leyfa nýja nemandanum að finna sig og síðan er lagt af stað með vel skipulagða félagslega aðlögun með virkri þátttöku íslensku nemendanna.
  • Íslensku nemendurnir eru þjálfaðir í að kenna erlenda nemandanum íslensku og lögð á það áhersla að þeir noti ekki ensku í samskiptum sínum við þá.
  • Skólinn aflar upplýsinga um áhugamál og styrkleika nemandans sem kemur erlendis frá og reynt er að greiða leið hans í félagsstarf eða tómstundir í Garðabæ þar sem jafnaldrar hans eru. Námsráðgjafar, nemendaráðgjafar eða starfsmenn félagsmiðstöðvar taka þetta hlutverk að sér.
  • Félagsmiðstöð og starfsmenn hennar eru kynnt vel fyrir nemandanum og fá nemanda/nemendur úr félagsmálavali það verkefni að kynna félagslífið vel fyrir erlenda nemandanum og sjá til þess að hann sé vel upplýstur um alla viðburði í skólanum og hafi örugga fylgd á þá ef hann óskar þess.
  • Ef margir nemendur með sama móðurmál stunda nám við skólann er mikilvægt að þeir vinni saman og styðji hvorn annan í náminu. Sumir þeirra hafa verið lengur á Íslandi en aðrir og eru lengra komnir í náminu og því tilvaldir í slíka jafningjafræðslu.
English
Hafðu samband