Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Samkvæmt Lögum um grunnskóla nr. 91/2008 á skólinn „að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.” Í reglugerð um nemendur með sérþarfir nr. 585/2010 er áréttað að allir nemendur eigi að fá “jöfn tækifæri á eigin forsendum til náms og virkrar þátttöku í grunnskólum án aðgreiningar þannig að komið sé til móts við náms-, líkams-, félags- og tilfinningalegar þarfir þeirra.”

Stuðningur og sérkennsla eru ætluð þeim sem þurfa meiri hjálp við nám sitt en kennarar geta veitt í almennum kennslustundum. Námsver Garðaskóla gegnir lykilhlutverki í stuðningi og sérkennslu skólans, bæði fyrir getulitla og getumikla nemendur. Í námsveri fá nemendur aðstoð til lengri eða skemmri tíma og er hún sniðin að þörfum hvers og eins á því sviði sem þörf er á. Í Garðaskóla er að jafnaði ekki gerð krafa um að nemandi hafi greiningu á námsvanda til að hann fái sérþjónustu. Ef nemandi hefur þörf fyrir sérþjónustu þá leggur starfsfólk skólans sig fram um að mæta henni. Skólinn leggur höfuðáherslu á að stundaskrá nemenda sé miðuð að þörfum og óskum hvers nemenda þannig að hann geti staðið undir þeirri ábyrgð sem henni fylgir.

Stuðningur og sérkennsla fer fram í námsveri Garðaskóla og stýrir deildarstjóri námsvers starfsemi þess. Í námsveri starfa kennarar, þroskaþjálfar og stuðningsfulltrúar og aðrir sérfræðingar eftir þörfum hverju sinni. Starfsfólk námsvers er ávallt í nánu samstarfi við deildarstjóra árganga og náms- og starfsráðgjafa skólans. Kennsla í námsveri fer fram inni í bekkjum, í litlum hópum og einstaklingslega, allt eftir þörfum og aðstæðum. Fjöldi tíma sem nemendur sækja er mjög mismunandi. Sumir sækja tímabundið einn tíma á viku á meðan aðrir nemendur sækja allt að 20 klst. á viku allt skólaárið í námsveri. Hjarta námsversins slær í stuðningstímum sem nemendur geta sjálfir sótt um til viðbótar við fasta tíma í stundaskrá. Í námsveri hittast nemendur úr ýmsum áttum og þar finna nemendur vel að þeir fá stuðning þar sem þeir þurfa á honum að halda. Mikil áhersla er lögð á að námsverið haldi áfram að þróast og styrkja stöðu sína sem lykilþáttur í starfsemi skólans.

Í 8. bekk Garðaskóla er hefðbundið bekkjarskipulag. Stuðningur og sérkennsla er því skipulagt inn í bekkina og þá er áherslan lögð á íslensku og stærðfræði. Hluti af þessum stuðningi er veittur inni í bekkjunum en í ákveðnum kennslustundum eru litlir hópar nemenda með vel skilgreinda sérkennsluþörf teknir út úr bekkjunum. Í stærðfræði er nemendum skipt upp í hópa eftir námslegum þörfum um miðja haustönn. Þeir sem styst eru komnir í stærðfræðinámi fá öfluga kennslu í litlum hópi. Nemendur 8. bekkjar hafa þétt setna stundatöflu og eru yfirleitt með samfelldan skóladag frá 8.10-14.15. Af þessum sökum er ekki hægt að veita þeim aukatíma í stuðning eins og gert er í 9. og 10. bekk nema í undantekningartilfellum.

Í 9. og 10. bekk Garðaskóla er nám skipulagt eins og í áfangaskóla. Áfangakerfið er til orðið svo að sem flestir nemendur fái námsverkefni við sitt hæfi. Það þýðir í reynd að mismiklar kröfur eru um vinnuframleg allt eftir dugnaði og námshæfni nemenda. Þrátt fyrir það eru í öllum hópum einhverjir sem eiga erfiðast með að tileinka sér það sem fyrir þá er lagt. Þeir geta fengið stuðning við nám sitt í stærðfræði og íslensku í námsveri skólans. Þetta þýðir að nemendur í stuðningstímum í námsverinu eru úr flestum „ferðum“ skólans og þar er því námslega blandaður hópur.

Í ákveðnum tilvikum eru myndaðir námsversbekkir. Þetta eru litlir hópar nemenda sem þurfa mikinn og sértækan stuðning í skólanum. Námsversbekkur fær kennslu í kjarnagreinum í námsverinu en nemendur sækja valgreinar, íþróttir og verklegar greinar í almenna hópakerfi skólans. Auk þess er sérfræðiráðgjöf veitt í námsverinu og byggð inn í stundatöflu viðkomandi nemenda. 

Á hverjum vetri sækja yfir 30% nemenda Garðaskóla þjónustu af einhverju tagi í námsverinu. 

 

 

English
Hafðu samband