Samskipti og skólaandi
Í þessum kafla á vef Garðaskóla má lesa stefnu skólans varðandi samskipti og skólaanda og hvetjum við alla nemendur og forráðamenn til að kynna sér þetta efni vel. Hér að neðan er kynning á uppeldi til ábyrgðar sem er sú hugmyndafræði sem lögð er til grundvallar starfinu í Garðaskóla. Í undirköflum sem finna má á spássíunni til vinstri er fjallað um:
- Grunnþarfirnar
- Skólareglur Garðaskóla
- Uppbygging - árangursríka leiðin
- Marklínur
- Ástundun og skólasókn
- Umgengni um skóla og lóð
- Uppeldi til ábyrgðar - ítarefni
Í Garðaskóla er áhersla lögð á að byggja upp sterka einstaklinga og jákvæð samskipti þannig að daglegt samstarf gangi vel og andi innan skólans sé góður. Til að vinna þetta vel styðjast starfsmenn við hugmyndafræði og aðferðir uppbyggingarstefnunnar sem í mörgum íslenskum skólum er kölluð uppeldi til ábyrgðar[1]. Stefnan í Garðaskóla er að vinna agamál á þann hátt að allir aðilar komi sem sterkastir frá samskiptum, reiðubúnir að líta í eigin barm og ná betri stjórn á eigin hegðun. Til þess að það takist er ávallt reynt að velja mildustu, fljótlegustu og árangursríkustu leiðina til lausnar á samskiptavanda.
Þeir sem starfa í Garðaskóla eru mannlegir og þeim geta orðið á mistök í hegðun, umgengni og samskiptum. Það gildir um alla: nemendur, kennara, stjórnendur og aðra starfsmenn skólans. Við gerum ráð fyrir að fólk geti gert mistök og gefum tækifæri til að leiðrétta þau. Besta leiðin til að vinna úr málum sem koma upp er að viðurkenna þau mistök sem orðið hafa, gera áætlun um að leiðrétta þau og koma í veg fyrir að þau endurtaki sig. Þegar nemandi áttar sig á að honum hafi orðið á mistök í hegðun eða samskiptum gefst honum tækifæri á að vinna á jákvæðan hátt úr sínum málum og snúa sterkari aftur til starfa sinna í sátt við samstarfsmenn sína.
Í Garðaskóla leggjum við áherslu á að allir aðilar þekki hlutverk sín og virði verksvið annarra. Starfsmenn skilgreina skýrar marklínur milli eðlilegrar og ásættanlegrar hegðunar annars vegar og óásættanlegrar hegðunar hins vegar. Ef hegðun nemanda fer út fyrir marklínur með því að brjóta skólareglur, hann sýni ósæmilega framkomu eða valdi öðrum ónæði eða truflun ber öllum starfsmönnum að leitast við að leysa málið strax og bjóða nemandanum tækifæri til að leiðrétta hegðun sína. Það sama á við hvort sem atvik á sér stað í kennslustund, á göngum skólans eða í félagsmiðstöð. Ef nemendur geta eða vilja ekki velja árangursríka leið út úr aðstæðunum er honum vísað í viðtal hjá deildarstjóra sem vinnur málið áfram.
Nemendum sem þarfnast stöðugs aðhalds er í samráði við forráðamenn gert að vera með aðhaldsblað í ákveðinn tíma. Fagkennarar færa inn á blaðið upplýsingar um frammistöðu nemandans í hverri kennslustund og síðan skilar nemandinn blaðinu til umsjónarkennara eða deildarstjóra í lok hvers skóladags. Ef vel tekst til og nemandinn sýnir bætta hegðun þá þarf hann einungis að vera með aðhaldsblaðið í stuttan tíma. Leysist mál nemanda ekki á þennan hátt er því vísað til skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra.
Alvarlegri mál og ítrekuð eru borin undir forráðamenn og í sameiningu er leitað leiða til að fá nemandann til jákvæðara samstarfs. Agamál eru alla jafna leyst í samvinnu foreldra, nemenda og starfsfólks skólans. Deildarstjóri í samráði við umsjónarkennara metur hvort skólastjóri eða aðstoðarskólastjóri kemur að málinu. Ef ekki reynist hægt að leysa vandamál innan skólans er leitað annarra leiða í samvinnu við Skóladeild Garðabæjar, barnaverndaryfirvöld, heilsugæslu eða aðra samstarfsaðila skólans.
[1] Guðlaug Erla Gunnlaugsdóttir og Magni Hjálmarsson. (2007). Uppeldi til ábyrgðar. Uppbygging sjálfsaga. Netla, veftímarit um uppeldi og menntun. Birt á vefnum 16. apríl 2007: http://netla.hi.is/greinar/2007/003/index.htm