Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Ástundun og skólasókn

Í Garðaskóla stefnum við að því að nemendur öðlist sjálfsstjórn, sjálfstraust og sjálfsvirðingu. Stundvísi, góð skólasókn og ástundun náms er góður mælikvarði á árangur í þeim efnum auk þess að stuðla að sem bestum námsárangri.

Ákvæði grunnskólalaga um skólasókn eru skýr: Nemendur skulu mæta stundvíslega í allar kennslustundir. Utanumhald um skólasókn nemenda og viðbrögð skólans í þeim efnum eru í samræmi við viðmið og tilmæli í Lögum um grunnskóla nr. 91/2008 og Reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011. Í Garðaskóla er lögð áhersla á að skólasókn og ástundun sé skráð samdægurs og að foreldrar fylgist vel með stöðunni hjá sínum unglingi. Gott aðhald varðandi skólasókn tryggir öruggan ramma utan um dagleg störf nemenda og er mikilvægt samstarfsverkefni heimilis og skóla:

Skráningar á viðveru og ástundun náms 

Skólasókn nemenda er skráð daglega í Innu. Bæði nemendur og forráðamenn hafa aðgang að Innu og mikilvægt er að forráðamenn fylgist vel með skráningu þar. Í Garðaskóla er horft á viðveru nemenda til að fylgjast með skólasókn þeirra og fara umsjónarkennarar vikulega yfir stöðu mála.

Skólasóknareinkunn er gefin við lok skólaárs og birt á vitnisburðarspjaldi. Einkunnin byggir á eftirfarandi reglum:

  • Nemendur eiga að sækja allar kennslustundir stundvíslega. Nemendur sem ítrekað koma of seint eiga von á að verða kallaðir í viðtal til umsjónarkennara og/eða deildarstjóra.
  • Forráðamanni ber að tilkynna veikindi samdægurs. Forráðamenn skrá veikindi samdægurs beint í Innu. Veikindi sem vara í meira en einn dag ber að skrá á hverjum degi. Ef um langvarandi veikindi er að ræða þarf að framvísa læknisvottorði.
  • Forráðamanni ber að tilkynna aðrar lögmætar fjarvistir samdægurs símleiðis á skrifstofu skólans (sími 590 2500) eða með tölvupósti til skrifstofu (gardaskoli@gardaskoli.is). Þetta á við um t.d. tannlæknaheimsóknir og leyfi allt að tveim dögum.
  • Leyfi þurfa forráðamenn að sækja um fyrirfram. Skólinn mælist til þess að forráðamenn haldi leyfisbeiðnum fyrir nemendur í lágmarki til að tryggja samfellda skólagöngu og lágmarka álag á námsferlinum. Skrifstofa skólans tekur við leyfisbeiðnum vegna stakra kennslustunda og 1-2 daga. Umsóknir um lengri leyfi eru skráðar á vef skólans (http://gardaskoli.is/skolinn/eydublod-og-verkferlar/leyfi/) og fara til aðstoðarskólastjóra til afgreiðslu.

Fagkennarar fylgjast með ástundun og hegðun nemenda og skrá ákveðin atriði í Innu eftir hverja kennslustund. Öll fjarvera frá skóla lækkar vikulegt viðveruhlutfall (raunmæting, skráð sem prósentutala) nemanda. Ef lögmætar skýringar liggja að baki fjarverunni þá telst hún ekki til lækkunar á skólasóknareinkunn. Þau atriði sem kennarar merkja við hjá nemendum eru:

Þegar skólasóknar einkunn er gefin er fjöldi:

Nemendur sem þurfa að yfirgefa skólann á miðjum degi vegna veikinda eiga láta vita af sér á skrifstofu skólans. Forráðamenn eru ávallt látnir vita þegar nemandi fer heim á miðjum skóladegi.

Fjarvist án skýringar er skráð ólögmæt. Á föstudögum sendir skrifstofa skólans forráðamönnum yfirlit um ástundun úr Innu. Ef gera þarf athugasemd eða leiðréttingu á forráðamaður að senda skýringar á skrifstofu skólans í upphafi næstu viku. Ástundunarskráningu er ekki breytt nema um villur sé að ræða. Einungis starfsfólk skrifstofu og skólastjórnendur geta og mega leiðrétta skráningu á skólasókn nemenda. Skýringar sem berast eftir að leiðréttingartímabili er lokað (að hámarki 8 dögum eftir tilvik) eru skráðar við ástundunarskráningu en skráningunni sjálfri er ekki breytt.

Ef skólasókn er ábótavant

Umsjónarkennari ræðir viðveru, ástundun og merkingar í Innu við umsjónarnemendur sína í umsjónartímum. Forráðamenn fá send vikuleg ástundunaryfirlit og bera ábyrgð á því að fylgjast með viðveru.

Þegar nemandi er kominn með 10,1 stig (C í einkunn) hefur umsjónarkennari samband við forráðamenn og upplýsir þá um stöðu mála og leggur áherslu á að mæting verði að batna. Nemandinn er skammt frá því að falla á mætingu og ef samtal heim dugar ekki til að bæta viðveru fer eftirfarandi ferli í gang:

  • Þegar nemandi er fallinn á mætingu, kominn með meira en 14 stig, vísar umsjónarkennari málinu til deildarstjóra nemendamála með þar til gerðu eyðublaði þar sem kemur fram nafn nemanda, hversu mörg fjarvistarstig nemandinn hefur fengið og hvenær umsjónarkennari talaði við forráðamenn.
  • Þegar máli hefur verið vísað til deildarstjóra sendir deildarstjóri tilkynningu til foreldra í pósti og boðar til fundar með forráðamönnum þar sem farið er yfir viðveru nemandans, skýringa leitað og reynt að finna leiðir til þess að bæta mætingu nemandans.
  • Ef ekki verða úrbætur á viðveru eftir þetta samtal og punktafjöldinn fer yfir 25 stig skal málið tekið upp í nemendaverndarráði skólans.
  • Fari nemandi yfir 21 fjarvistarstig telst það alvarlegur misbrestur á skólasókn og skv. lögum um grunnskóla nr. 91/2008, 19. grein, skal nemandinn tilkynntur fræðslu- og barnaverndaryfirvöldum. Ef engar lausnir finnast getur skólastjóri vísað nemandanum frá skólanum og er annarra skólaúrræða þá leitað í samráði við skóladeild og barnaverndaryfirvöld. 

Nemendum sem sýna vilja til þess að bæta mætingu má bjóða skólasóknarsamning, en í honum felst að nemandi sem bætir mætingu sína verulega og bætir ekki við sig fleiri fjarvistarstigum eftir að samningur er gerður (lágmark 6 vikum fyrir skólalok) getur hækkað einkunn sína um eina einkunn, úr D í C eða úr C í B.

Hjá nemendum sem eru með raunmætingu undir 85% hefur deildarstjóri samband við forráðamenn og kannar líðan og velferð þeirra nemenda.

Hér má sjá skólasóknarreglur Garðabæjar sem Garðaskóli vinnur eftir.

Ástundun og hegðun

Auk upplýsinga um viðveru og skólasókn eru í Innu skráðar bæði jákvæðar og neikvæðar umsagnir til að lýsa ástundun náms og hegðun nemenda í daglegu starfi. Þessar umsagnir eru notaðar til að fylgjast með vinnubrögðum og hegðun og ræddar við nemendur og foreldra þegar tilefni er til. Umsjónarkennarar fylgjast með stöðu nemenda og ræða við þá í umsjónartímum og við forráðamenn eftir þörfum.

Umsagnir sem lýsa vinnubrögðum, ástundun og hegðun nemenda í daglegu starfi eru bæði jákvæðar og neikvæðar. Þessi atriði eru ekki metin til einkunnar við lok skólaárs en liggja til grundvallar í samskiptum skólans við nemendur og forráðamenn og eru rædd þegar tilefni er til. Eftirfarandi umsagnir má finna í Innu í Garðaskóla, til viðbótar við skráningu um skólasókn:

  • Góð frammistaða í kennslustund
  • Vanvirkni í kennslustund
  • Í framför
  • Ábótavant
  • Án heimavinnu
  • Verkefni ekki skilað
  • Án námsgagna
  • Óheimil notkun síma/raftækja
  • Truflun í kennslustund
  • Án yndislestrarbókar
English
Hafðu samband