Comeniusar-verkefni í Garðaskóla
Um margra ára skeið hefur Garðaskóli tekið þátt í sameiginlegum verkefnum nokkurra Evrópulanda með styrk frá Evrópussambandinu. Verkefnin hafa verið margvísleg og hafa bæði nemendur og kennarar skólans tekið þátt. Mest höfum við unnið með skólum í Þýskalandi, Frakklandi, Spáni, Ítalíu og Finnlandi. Skóli í Kína hefur komið að samstarfsnetinu og í verkefni sem fer af stað haustið 2015 bætist við skóli frá Grikklandi.
Útkoman úr samstarfinu hefur verið breytileg. Alltaf hefur þó verið haft að leiðarljósi að auka skilning og virðingu fyrir menningu og margbreytileika annarra Evrópuþjóða. Búnar hafa verið til listaverkabækur, myndband, matreiðslubók og spurningaspil og eru þessar afurðir frábærar heimildir um ólíka menningarheima sem eiga um leið margt sameiginlegt.
Mikilvægur hluti af hverju samstarfsverkefni eru gagnkvæmar nemendaheimsóknir. Þar hefur nemendum Garðaskóla og hinna þátttöku skólanna gefist tækifæri til þess að heimsækja jafnaldra sína, setjast á skólabekk erlendis, njóta gestrisni heimamanna og fá innsýn í menningu og siði annarrar Evrópuþjóðar. Þessi nemendaskipti hafa verið mjög gefandi og þroskandi. Sé litið yfir þátttöku nemenda Garðaskóla í Comenius samstarfi undanfarin 10 ár má nefna að lauslega áætlað hafa yfir 100 nemendur tekið þátt nemendaskiptunum og a.m.k. þrisvar sinnum fleiri lagt hönd á plóg í sameiginlegu verkefnunum.
Garðaskóli hefur fengið ýmsar viðurkenningar fyrir þá vinnu sem fram hefur farið undir hatti evrópsku menntaáætlunarinnar. Vinnutungumálið í öllum þessum samskiptum er enska og hefur Halla Thorlacius enskukennari séð um verkefnastjórn frá upphafi og fengið marga góða samstarfsmenn til liðs við sig.
Haustið 2015 hefst nýtt verkefni hópsins og ber það titilinn From raw material to final product: A contribution to the curriculum development. Verkefnið er það fyrsta undir nýrri samstarfsáætlun Evrópusambandsins, Erasmus+ sem mun gilda til ársins 2020.