Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Í Garðaskóla er stefnan að vinna agamál á þann hátt að allir aðilar komi sem sterkastir frá samskiptum, reiðubúnir að líta í eigin barm og ná betri stjórn á eigin hegðun. Til þess að það takist er ávallt reynt að velja mildustu, fljótförnustu og árangursríkustu leiðina til lausnar á samskiptavanda.

Allir geta gert mistök og fá tækifæri til að leiðrétta þau

Þeir sem starfa í Garðaskóla eru mannlegir og þeim geta orðið á mistök í hegðun, umgengni og samskiptum. Það gildir um alla: nemendur, kennara, stjórnendur og aðra starfsmenn skólans. Við gerum ráð fyrir að fólk geti gert mistök og gefum tækifæri til að leiðrétta þau. Besta leiðin til að vinna úr málum sem koma upp er að viðurkenna þau mistök sem orðið hafa, gera áætlun um að leiðrétta þau og koma í veg fyrir að þau endurtaki sig. Þegar nemandi áttar sig á að honum hafi orðið á mistök í hegðun eða samskiptum gefst honum tækifæri á að vinna á jákvæðan hátt úr sínum málum og snúa sterkari aftur til starfa sinna í sátt við samstarfsmenn sína.

Þegar eitthvað fer úrskeiðis fær nemandi val um hvernig hann vill leysa málið:

  1. Hann getur valið um að fara milda og árangursríka leið – uppbyggingu, eða...
  2. ... að taka skilgreindum afleiðingum gerða sinna, viðurlögum.

Framangreint val er ekki í boði ef um alvarleg brot er að ræða. Þá gilda föst viðurlög með ýmsum afleiðingum allt eftir eðli brotsins. Að lokinni málsmeðferð og fullnustu viðurlaga geta nemendur hins vegar óskað eftir eða þegið tilboð um að gera áætlun um breytta hegðun.

Dæmi um uppbyggingu

  • Í kennslustund: Kennari áminnir nemanda og gefur honum tækifæri til að ná stjórn á eigin hegðun og leiðrétta mistök sín (bæta hegðun sína). Ef nemandi heldur uppteknum hætti ber kennara að senda nemanda til deildarstjóra þar sem honum gefst tími og næði til að vinna í sínum málum.
  • Hjá deildarstjóra er farið yfir mál nemanda og þar býðst honum tækifæri til að gera áætlun um leiðréttingu á hegðun sinni. Málið er gert upp milli nemanda og viðkomandi kennara áður en næsta kennslustund hjá kennaranum hefst. Umsjónarkennara og foreldrum er gert viðvart um málsatvik þegar þörf er á.
  • Á göngum skólans, skólasafni, í félagsmiðstöð, mötuneyti og íþróttamiðstöð gilda sömu viðmið um hegðun og samskipti og í kennslustundum. Starfsmenn gefa nemanda tækifæri til að bæta hegðun sína. Ef það gerist ekki ber starfsmanninum að vísa nemanda til deildarstjóra. Nemendum ber að hlýða tilmælum starfsmanna skólans, félagsmiðstöðvarinnar, matsölu og íþróttamiðstöðvar.
English
Hafðu samband